Fann strax að hér vildi ég vera

„Ég fann það um leið og ég gekk hér inn á vinnustaðinn að hér vildi ég vera. Mér fannst ég strax tilheyra, sem skiptir miklu máli þegar maður hefur störf á nýjum stað. Það var tekið gríðarlega vel á móti mér en á sama tíma var mér dýft á bólakaf í djúpu laugina og mér treyst fyrir krefjandi verkefnum, alveg frá upphafi. Ég þurfti því að vera snögg að tileinka mér tungumál vinnustaðarins og setja mig inn í öll mál. Á þeim tíma sem ég hef unnið hér hef ég lært ótal margt og aukið við þekkingu mína á hinum ýmsu sviðum,“ segir Anna Rún Frímannsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu. 

Starfsfólk Árvakurs fær faglegan stuðning í starfi sem dregur fram það besta í hverjum og einum. Hvatt er til listræns frelsis og sjálfstæðis í efnistökum málefna. Störf Árvakurs skipta máli fyrir samfélagið enda er fyrirtækið leiðandi afl í þjóðfélagsumræðunni.

„Við fáum alveg ótrúlega mikið traust, og þegar manni er sýnt traust þá getur maður vaxið í starfi. Það er einnig alveg gríðarlega gott að finna að maður er ekki einn á báti. Hér eru reynsluboltar í hverju horni. Fólk er alltaf tilbúið að gefa manni ráð og veita manni stuðning og við fáum frelsi til að koma hugmyndunum okkar í farveg og vinna þær. Mér finnst það gríðarlega mikilvægt í mínu starfi,“ segir Anna Rún.

Stuðningur og hvatning

Í 110 ár hefur Árvakur verið leiðandi afl í samfélaginu og þar sem stór hluti starfsfólks er með langan starfsaldur þá myndast svigrúm fyrir stuðning og hvatningu í starfi. Áskorun vinnumarkaðarins er að búa til fyrirtækjamenningu þar sem sanngjörn samskipti og vinskapur er í öndvegi. Það er erfitt að blómstra í starfi þegar maður upplifir sig einan á báti og án stuðnings og hvatningar frá samstarfsfólki og yfirmönnum.

„Samskiptin hér innanhúss einkennast svo sannarlega af hlýhug og virðingu því ég hef ekki enn lent í því að koma að lokuðum dyrum ef mig hefur vantað aðstoð við eitthvað. Hér er fólk sem er hokið af reynslu og ávallt tilbúið að miðla henni áfram sem er einstaklega dýrmætt ef það á að halda hjólunum vel smurðum og gangandi. Hér sannast það kannski líka best að komdu fram við aðra eins og þú vilt láta koma fram við þig,“ segir Anna Rún.

Treyst fyrir mikilvægum verkefnum

Hjá Árvakri leitum við eftir hæfileikaríku fólki, fólki með metnað og eldmóð. Sumir koma beint úr námi, aðrir eru fæddir til að vera í fjölmiðlum. Tökum Ásthildi Hannesdóttur verkefnastjóra sem dæmi. „Mér finnst vinnan hafa hjálpað mér að vaxa og dafna í starfi og einnig persónulega,“ segir Ásthildur.

„Mér var hent í djúpu laugina og var gefið traust til að feta mig áfram á hinum ýmsu sviðum. Ég hef skrifað þvert á miðla, sem dæmi greinar og fréttir inn á Smartlandið, Matarvefinn og fyrir K100. Svo bauðst mér að fara í Dagmál og fóta mig fyrir framan myndavélina sem var mjög skemmtilegt líka. Ég hefði aldrei haft trú á að ég gæti þetta allt en kannski hafa stjórnendur Árvakurs séð í mér eitthvað sem ég vissi ekki að ég gæti sjálf,“ segir Ásthildur.

Einn af kostunum við að vinna hjá Árvakri er að þar koma saman reynsluboltar úr atvinnulífinu sem og ungt fólk sem stefnir hátt. Saman setur þetta fólk skemmtilegan svip á líflegan vinnustaðinn.

„Það er mikil hvatning að vinna fyrir stóran, öflugan og mikilvægan fjölmiðil á Íslandi og vera svo jafnframt að vinna með góðu og sterku fólki. Stjórnendur eru með skýra sýn á hvernig við sjáum fjölmiðla okkar þróast á komandi árum. Kröfur og þarfir lesenda okkar eru einnig breytilegar í síkviku fjölmiðlaumhverfi og viljum við bregðast við því,“ segir Pálmi Guðmundsson, fyrrverandi sjónvarpsstjóri og nú forstöðumaður þróunarmála hjá Árvakri.

Ef þú vilt starfa á vinnustað þar sem þú færð tækifæri til að verða leiðandi í þínu fagi og blómstra í starfi, þá bjóðum við þér upp á að sækja um vinnu hjá Árvakri hér.

Árvakur gefur út Morgunblaðið og rekur fréttavefinn mbl.is auk útvarpsstöðva. Morgunblaðið, sem var fyrst gefið út árið 1913, nær til 40% landsmanna í hverri viku og mbl.is, sem settur var í loftið árið 1998, er einn mest sótti vefur landsins og hefur verið það frá upphafi.

mbl.is