„Dæmigerður dagur hjá mér getur verið mismunandi. Allt frá því að styðja við starfsmenn mína svo að þeir geti unnið vinnuna sína sem best, í að taka stærri ákvarðanir varðandi upplýsingatækni og stafræna þróun. Árvakur hefur stutt mig mjög vel. Ég hef getað sótt þær ráðstefnur sem ég þarf að fara á til að þróast og vaxa í starfi,“ segir Úlfar Ragnarsson, forstöðumaður upplýsingatæknisviðs Árvakurs.
„Síðan erum við alltaf að reyna að hugsa út fyrir kassann þegar kemur að upplýsingatæknikerfunum og öðru slíku, til að auðvelda fólki að vinna vinnuna sína. Það er þannig sem maður hefur áhrif á samfélagið,“ segir Úlfar.
Hvatning að hafa aðgang að hugviti
Starfsfólk Árvakurs fær faglegan stuðning í starfi sem dregur fram það besta í hverjum og einum. Hvatt er til nýsköpunar og þróunar svo að störf Árvakurs skipti máli fyrir allar kynslóðir samfélagsins, enda hefur fyrirtækið það að markmiði að vera leiðandi afl í þjóðfélagsumræðunni um ókomna tíð.
„Í þeim verkefnum sem ég er að vinna að felst stærsta tækifærið í að við erum með erlenda samstarfsaðila sem eru með gífurlega þekkingu og reynslu á sínu sviði. Það er mikil hvatning í því að hafa aðgang að slíku hugviti,“ segir Pálmi Guðmundsson, forstöðumaður stafrænnar þróunar hjá Árvakri.
Mjög gott samstarfsfólk
Í raun hefur Árvakur verið leiðandi afl í samfélaginu í 110 ár og þar sem stór hluti starfsfólks er með langan starfsaldur myndast svigrúm til þess að hugsa hlutina upp á nýtt og breyta til. Áskorun vinnumarkaðarins er að búa til fyrirtækjamenningu þar sem einstaklingar mega prófa sig áfram í starfi. Það er erfitt að blómstra þegar gera þarf hlutina á sama hátt lengi.
„Ég hef fullt svigrúm til að vinna verkin mín og er með mjög gott samstarfsfólk. Fyrir vikið eru verkefnin að stækka. Ég er ekki að skrifa sögurnar, heldur að vinna við að gera upplifunina á miðlum okkar betri og nútímalegri. Það er mjög skemmtilegt verkefni og ég veit að áskrifendur og lesendur eiga eftir að kunna vel að meta þessa vinnu,“ segir Pálmi.
Ef þú vilt starfa á vinnustað þar sem þú færð tækifæri til að verða leiðandi í þínu fagi og blómstra í starfi þá bjóðum við þér upp á að sækja um vinnu hjá Árvakri.