Starfsánægja þrátt fyrir óvissutíma

Hjá Bláa Lón­inu starfa um 800 manns af 40 þjóðern­um í fjöl­breytt­um störf­um víða um landið. Sigrún Hall­dórs­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri mannauðs, menn­ing­ar og ör­ygg­is hjá Bláa Lón­inu, hef­ur brenn­andi áhuga á mannauðsmá­l­um og að setja þau í sam­hengi við rekstr­ar­leg­an ávinn­ing. Hún er rekstr­ar­verk­fræðing­ur með meist­ara­gráðu í mannauðsstjórn­un sem nýt­ist henni vel í starfi.

„Starf mitt sam­ein­ar þá þætti sem ég brenn fyr­ir. Ég hef mik­inn áhuga á fólki, rekstri og að ná ár­angri sem liðsheild. Í starfi mínu hjá Bláa Lón­inu skipt­ir máli að hafa þekk­ingu á mann­leg­um þátt­um, hæfni til að greina og meta verk­efni og að taka ákv­arðanir út frá rekstr­ar­leg­um ávinn­ingi,“ seg­ir Sigrún.

Ægir Vikt­ors­son, for­stöðumaður ráðninga og mannauðsráðgjaf­ar, bend­ir jafn­framt á að vinnustaður­inn sé gríðarlega fjöl­breytt­ur. „Heild­ar­fjöldi starfs­fólks Bláa Lóns-fjöl­skyld­unn­ar tel­ur 800 manns af 40 þjóðern­um. Við bjóðum upp á fjöl­breytt störf víðs veg­ar um landið. Starf­semi okk­ar nær allt frá Svartsengi upp í Kerl­ing­ar­fjöll og aust­ur að Hof­felli og Hraun­eyj­um.

Hjá okk­ur starfar fólk í fram­línu­störf­um við að þjón­usta gesti, en inn­an okk­ar raða eru líka vís­inda­menn og sér­fræðing­ar á ýms­um sviðum. Það er í raun fjöl­breytn­in og breidd starfa sem kem­ur flest­um hvað mest á óvart. Við erum afar stolt af þess­um fjöl­breyti­leika og telj­um hann mik­inn styrk fyr­ir okk­ur sem upp­lif­un­ar­fyr­ir­tæki en ekki síður sem vinnustað. Mis­mun­andi reynsla, bak­grunn­ur og mennt­un skil­ar sér ekki síst í aukn­um þjón­ustu­gæðum og fag­mennsku, “ seg­ir Ægir.

Stóðu vörð hvert um annað í óviss­unni

Spurð um vinnustaðamenn­ingu Bláa Lóns­ins seg­ir Lóa Ingvars­dótt­ir, for­stöðumaður fræðslu, gæðamála mannauðs og innri sam­skipta, menn­ing­una ein­kenn­ast fyrst og síðast af gleði. „Vinnustaðamenn­ing okk­ar ein­kenn­ist fyrst og fremst af gleði, um­hyggju, metnaði og virðingu. Við þekkj­um okk­ar stöður, hjálp­umst að við að þró­ast og efl­ast og erum öll að róa í sömu átt. Við leggj­um ríka áherslu á að miðla upp­lýs­ing­um vel til allra með það að mark­miði að byggja upp traust. Það er lyk­il­atriði á óvissu­tím­um sem þess­um að all­ir séu vel upp­lýst­ir þannig að fólk finni fyr­ir ör­yggi þegar það kem­ur í vinn­una. Á okk­ar mæl­ing­um sést að það skipt­ir sköp­um og skil­ar sér í meiri helg­un og ánægju. Við veit­um hvert öðru stuðning og vinn­um sí­fellt að því sem heild að finna leiðir til þess að læra og gera bet­ur,“ seg­ir Lóa og Ægir tek­ur und­ir það. Hann seg­ir mannauð fyr­ir­tæk­is­ins ávallt hafa verið hjartað í rekstri Bláa Lóns­ins.

„Í jarðhrær­ing­um síðustu miss­era, þegar fót­um var kippt und­an stór­um hópi starfs­fólks, þá stóðum við öll vörð hvert um annað. Áhersla var á að skapa starfs­fólki ör­yggi og tryggja starfs­ör­yggi þó að rekstr­arör­yggi fyr­ir­tæk­is­ins væri stöðugt ógnað. Í því sam­hengi kom sér vel að vera búin að byggja upp sterka liðsheild og öfl­uga vinnustaðamenn­ingu,“ seg­ir hann.

Metnaðarfullt starfs­um­hverfi

Á hvað legg­ur mannauðssviðið áherslu núna?

„Jarðhrær­ing­ar eru vissu­lega verk­efni sem hef­ur fengið mikla at­hygli. Hins veg­ar er mik­il­vægt að muna að önn­ur verk­efni á mannauðssviði hverfa ekki á meðan og hef­ur nú­ver­andi skipu­lag á mannauðssviði gert okk­ur kleift að sinna öðrum metnaðarfull­um verk­efn­um sam­hliða. Til dæm­is opnuðum við nýja gisti- og baðaðstöðu í Kerl­ing­ar­fjöll­um um mitt sum­arið 2023. Eðli­lega er ým­is­legt sem mannauðus­svið þarf að huga að þegar starfs­fólk er í fjar­lægð eða uppi á há­lendi árið um kring. Sviðið legg­ur áherslu á að veita framúrsk­ar­andi þjón­ustu til allra starf­sein­inga fyr­ir­tæk­is­ins sam­hliða því að tak­ast á við nátt­úru­öfl­in í Svartsengi.

Einnig eru öll fræðslu­mál fyr­ir­tæk­is­ins á okk­ar borði og við leggj­um mik­inn metnað í að bjóða starfs­fólki upp á fjöl­breytta fræðslu í Bláa Lóns-aka­demí­unni sem gagn­ast bæði í leik og starfi. Til dæm­is bjóðum við upp á fræðslu um ólíka menn­ing­ar­heima, fræðslu um jarðfræði á Reykja­nesi og svo buðum við upp á hlaupanám­skeið í aðdrag­anda Reykja­vík­ur­m­araþons­ins. Okk­ur er mjög annt um and­lega og lík­am­lega heilsu starfs­fólks­ins en Bláa Lónið býður upp á fjöl­breytt fríðindi sem og aðgang að ýms­um sér­fræðing­um og nám­skeiðum í þeim efn­um,“ seg­ir Lóa.

Sigrún seg­ir mik­il­vægt að fylgj­ast grannt með mæli­kvörðum mannauðs í raun­tíma og að bregðast hratt og ör­ugg­lega við þegar þess þarf. „Það á jafnt við um helg­un, aðbúnað og líðan starfs­fólks yfir í mæli­kv­arða eins og starfs­manna­veltu, veik­inda­hlut­fall, mönn­un og kostnað. Allt miðar að því að búa til metnaðarfullt starfs­um­hverfi og stjórn­un sem ein­kenn­ist af gæðum, ásamt því að veita starfs­fólki og stjórn­end­um öfl­ug­an stuðning.

Við vilj­um vera fram­sæk­in og bregðast við í raun­tíma. Öflugt mannauðssvið leik­ur lyk­il­hlut­verk í að skapa frá­bært og metnaðarfullt starfs­um­hverfi, draga úr sóun og auka starfs­ánægju og holl­ustu starfs­fólks. Á sama tíma er framtíðar­hugs­un­in stór þátt­ur í allri upp­bygg­ingu og rekstri fé­lags­ins og því mik­il­vægt að starfs­fólk mannauðssviðs hafi færni og þekk­ingu til þess að vinna bæði að framtíðar­sýn sem og getu til þess að bregðast við í raun­tíma,“ seg­ir Sigrún.

Skil­virk upp­lýs­inga­gjöf mik­il­væg

Rým­ingaráætl­un Bláa Lóns­ins í Grinda­vík hef­ur vakið at­hygli og hversu ró­leg­ir starfs­menn hafa verið í kring­um jarðhrær­ing­arn­ar. Þessi mál hafa án efa verið á ykk­ar borði. Hvernig hafið þið nálg­ast þetta verk­efni?

„Það er mjög góð spurn­ing. Í raun hafa verk­efni tengd jarðhrær­ing­um verið á okk­ar borði mun leng­ur en frá því í nóv­em­ber árið 2023, þegar nú­ver­andi hrina hófst. Um leið og aðdrag­and­inn að gos­inu í Fagra­dals­fjalli hófst árið 2021 vor­um við byrjuð að und­ir­búa ýms­ar sviðsmynd­ir. Á mannauðssviðinu má helst nefna verk­efni tengd vellíðan og ör­yggi starfs­fólks í breiðum skiln­ingi, bæði hvað varðar and­lega og lík­am­lega heilsu og vellíðan. Til að mynda hafa verk­efn­in snú­ist um sí­fellda end­ur­skoðun og best­un á rým­ingaráætl­un­um og þjálf­un í því sam­hengi.

Þá hef­ur skipt miklu að skapa um­gjörð utan um fólkið okk­ar til að hitt­ast, veita og fá stuðning, vera með skil­virka upp­lýs­inga­gjöf, bjóða aðgengi að aðstoð sér­fræðinga á borð við sál­fræðinga og aðra sér­fræðinga, tryggja starfs­fólki og fjöl­skyld­um þeirra hús­næði og ör­yggi, vera með öfl­uga ör­ygg­isþjálf­un og ekki síst reglu­legt og virkt sam­tal við starfs­fólkið. Þetta er auðvitað bara topp­ur­inn á ís­jak­an­um. Í grunn­inn snýst starf mannauðssviðs á tím­um jarðhrær­inga um fólk, ör­yggi, upp­lýs­inga­gjöf og stuðning ásamt því að vinna öt­ult að framtíðar­sýn­inni á sama tíma,“ seg­ir Sigrún og tek­ur Ægir und­ir með henni og bæt­ir við hversu mik­il­vægt sé að halda utan um starfs­fólkið með fjölþjóðleg­an bak­grunn þess í huga.

„Það þarf að taka til­lit til ólíkra menn­ing­ar­heima og mis­mun­andi reynslu sem og ólíkra tungu­mála. Þess vegna bjóðum við til dæm­is upp á ís­lensku­nám­skeið og birt­um all­ar upp­lýs­ing­ar frá fyr­ir­tæk­inu á bæði ís­lensku og ensku á innra vefsvæði okk­ar. Upp­lýs­inga­fund­irn­ir sem fram­kvæmda­stjórn held­ur með öllu starfs­fólki viku­lega fara jafn­framt fram á ensku til að tryggja sam­eig­in­leg­an skiln­ing alls starfs­fólks,“ seg­ir hann.

Sigrún seg­ir það djúpt í menn­ingu Bláa Lóns­ins að horfa til framtíðar og það hafi gert þau bet­ur und­ir­bú­in fyr­ir þetta tíma­bil en ef þau hefðu ekki verið búin að skoða mögu­leg­ar sviðsmynd­ir framtíðar­inn­ar.

„Við höf­um breytt áhersl­um, ferl­um og verklagi inn­an fé­lags­ins til þess að búa okk­ur und­ir áfram­hald­andi vöxt og efla okk­ur enn frek­ar. Sam­hliða þeirri vinnu höf­um við eflt mannauðssviðið til muna sem gerði okk­ur vissu­lega kleift að tak­ast á við verk­efni jarðhrær­inga af mik­illi fag­mennsku og festu sam­hliða öðrum mik­il­væg­um verk­efn­um sviðsins,“ seg­ir Sigrún.

Mæta framtíðinni af hug­rekki og krafti

Lóa seg­ir að þótt ekki hafi borið á því utan frá hafi reynt á starfs­fólk Bláa Lóns­ins að und­an­förnu. „Óvissa reyn­ir alltaf á okk­ur. Bæði óviss­an í nátt­úr­unni en líka óreiða í umræðunni. Besta leiðin til að eyða óvissu er að upp­lýsa og á viku­leg­um fund­um með öllu starfs­fólk­inu miðlum við upp­lýs­ing­um frá okk­ar fær­ustu sér­fræðing­um hjá til að mynda Veður­stof­unni, Eflu verk­fræðistofu, al­manna­vörn­um og Bliku. Starfs­fólkið veit að það fær rétt­ustu upp­lýs­ing­ar, á hverj­um tíma, beint frá okk­ur og það skap­ar sann­ar­lega ör­yggi í óreiðunni. Við ein­beit­um okk­ur að því sem við höf­um stjórn á, það er innri upp­lýs­inga­gjöf, og reyn­um að gera það vel. Þegar það verða mis­tök þá erum við fljót að upp­lýsa um þau, læra af þeim og gera bet­ur. Við vit­um að það er mik­il­vægt því við erum fyrst og síðast í þessu öll sam­an, sem eitt lið,“ seg­ir hún.

Sigrún seg­ist lengi hafa verið þakk­lát fyr­ir liðsheild­ina, en sjald­an meira en nú. „Það sem ein­kenn­ir Bláa Lóns-fjöl­skyld­una er hversu þétt hún stend­ur sam­an. Við för­um sam­an í gegn­um all­ar þær áskor­an­ir sem verða á vegi okk­ar sem er ein­stakt að mínu mati. Við höf­um náð að þétta liðsheild­ina, auka traust og skora hátt á starfs­ánægju-mæli­kvörðum á óvissu­tím­um. Við horf­um sam­an til framtíðar með skýra sýn. Það þarf sterk­an slag­kraft til að fylgja slíkri sýn og þann kraft höf­um við,“ seg­ir Sigrún.

mbl.is