Calvin Klein-gallabuxur sem bandaríska leikkonan Brooke Shields klæddist í auglýsingaherferð tískurisans árið 1980 voru seldar á uppboði hjá Studio Auctions í Kaliforníu á dögunum.
Gallabuxurnar seldust á 68.750 bandaríkjadali eða rúmlega níu milljónir íslenskra króna, langt umfram áætlað verð sem var rétt tæpar sex milljónir íslenskra króna.
Shields, best þekkt fyrir hlutverk sín í kvikmyndum á borð við Pretty Baby og The Blue Lagoon, var aðeins 15 ára gömul þegar hún sat fyrir í auglýsingaherferð bandaríska tískuhússins. Leikkonan er í dag 59 ára gömul.
Í auglýsingunni skartaði Shields níðþröngum gallabuxum og var í opinni skyrtu. Í textanum stóð: „Það kemst ekkert á milli mín og Calvin gallabuxnanna minna.”
Auglýsingin var mjög umdeild á sínum tíma þar sem mörgum þótti hún of kynferðisleg.