Bandaríski leikstjórinn Francis Ford Coppola er á meðal þeirra í Hollywood sem hafa minnst leikarans Gene Hackmans. Greint var frá því fyrr í dag að Hackman og eiginkona hans, Betsy Arakawa, hefðu fundist látin á heimili þeirra í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum.
„Það að missa mikinn listamann er alltaf tilefni til að syrgja og fagna. Gene Hackman var frábær leikari, veitti öðrum innblástur og var magnaður í sínu starfi og sínu margbrotna eðli,“ skrifaði Coppola í færslu til minningar um Hackman sem hann birti á Instagram.
„Ég syrgi fráfall hans og fagna framlagi hans og tilveru.“
Lögreglustjórinn í Santa Fe-sýslu, Adan Mendoza, greindi frá því í dag að hjónin, sem höfðu verið gift í rúma þrjá áratugi, hefðu fundist látin síðdegis í gær.
Hann tók fram að ekkert benti til þess að nokkuð saknæmt hefði gerst. Upplýsingar um dánarorsök þeirra hafa þó ekki verið birtar opinberlega.
Hundur þeirra hjóna fannst einnig dauður í húsinu.
Hackman, sem varð 95 ára gamall í lok janúar, er einna þekktastur fyrir hlutverk sitt sem harðskeytti New York-lögreglumaðurinn Jimmy "Popeye" Doyle í kvikmyndinni The French Connection frá árinu 1971.
Hackman hlaut Óskarinn sem besti leikari í aðalhlutverki í þeirri kvikmynd.
Hann vann Óskarinn í annað sinn fyrir hlutverk sitt í Clint Eastwood-vestranum Unforgiven, sem kom út árið 1992, þá fyrir bestan leik í aukahlutverki.
Þá lék hann fógetann og rustamennið "Little Bill" Daggett.
„Þegar ég horfi á sjálfan mig á tjaldinu þá tekur það mjög á mig tilfinningalega,“ sagði Hackman eitt sinn.
„Ég tel mig – og mér líður eins og ég sé frekar ungur, og svo horfi ég á þennan gamla mann með breiðar kinnar og þreytt augu, hárið farið að þynnast og allt það.“
Hackman fæddist í Illinois árið 1930, á tímum kreppunnar miklu. Æska hans var erfið en faðir hans yfirgaf fjölskylduna þegar Hackman var þrettán ára gamall og ári síðar lést móðir hans í eldsvoða.
Hackman nýtti síðar þessa persónulegu reynslu til að skapa eftirminnilegar persónur á hvíta tjaldinu.
Það kom mörgum á óvart þegar hann skaust upp á stjörnuhimininn eftir að hafa unnið ýmis störf áður en hann sló í gegn. Hann var á fertugsaldri þegar fólk fór að veita honum eftirtekt í Hollywood.
Sagan segir að eftir að Hackman og leikarinn Dustin Hoffman, sem voru báðir við nám í Pasadena Playhouse í Kaliforníu seint á sjötta áratugnum, hafi verið á meðal þeirra nemenda sem voru kosnir á lista yfir þá sem myndu líklega ekki slá í gegn.
Eftir útskrift fékk Hackman tækifæri í litlum leikhúsum í New York og fór þá að vekja athygli.
Hann hlaut sína fyrstu Óskarstilnefningu fyrir aukaleik í kvikmyndinni Bonnie and Clyde frá 1967.
Þar lék hann Buck Barrow, sem var bróðir Clyde Barrow, og eftir það lá leiðin upp á stjörnuhimininn.
Hackman lék í fjölmörgum kvikmyndum á sínum langa ferli en hann sagði skilið við leiklist árið 2004, þegar hann var 74 ára gamall.
Hann hélt sig að mestu frá sviðsljósinu og einbeitti sér fremur að ritlist og því að mála.