„Ég er á leiðinni til Íslands,“ segir Bryan Adams, léttur í bragði, þegar ég spyr á símafundi okkar hvar hann sé staddur í heiminum. Ekki er gott að segja hvað það nákvæmlega þýðir en það gildir svo sem einu; hann er greinilega með hugann við sitt næsta verkefni, tvenna tónleika í Eldborgarsal Hörpu 21. og 22. apríl. Uppselt er á þá báða.
Hann hélt fjölsótta tónleika hér á landi fyrir 11 árum og hlakkar til að snúa aftur. „Þegar tækifærið bauðst þurfti ég ekki að hugsa mig um tvisvar og ekki er verra að um tvenna tónleika sé að ræða að þessu sinni.“
Tónleikarnir eru liður í Bare Bones-tónleikaferðalaginu, þar sem Adams kemur fram einn með gítarinn ásamt píanóleikara. „Það eru fimm ár síðan ég byrjaði á þessu og hugmyndin var einfaldlega að breyta til. Það getur líka verið erfitt að fara með heila hljómsveit á suma staði og mig hefur alltaf langað að fara eins víða og hægt er. Þetta form gerir mér það kleift. Mér skilst að einhverjir ætli að mæta, þannig að þetta ætti að verða stuð.“
Það er skammt stórra högga á milli hjá honum. Snemma í maí byrjar Roll with the Punches-túrinn, en samnefnd breiðskífa Adams kemur út í ágúst. Sú sextánda í röðinni. „Það er stærra dæmi, þannig að mér þótti upplagt að dusta rykið af Bare Bones og slá tvær flugur í einu höggi, það er hita röddina upp og heimsækja nokkra áhugaverða staði, eins og Ísland. Þetta er svolítið eins og að vera með tvo túra í gangi á sama tíma,“ segir Adams, en héðan mun hann halda til Færeyja, þar sem hann hefur ekki í annan tíma leikið.
Adams mun flytja sín frægustu lög í Hörpu í bland við minna þekkt lög og nýrra efni, þar á meðal lofar hann lögum af væntanlegri breiðskífu. „Ætli ég taki ekki tvö lög af henni, eða svo. Annars verður þetta blandað, lög sem flestir þekkja og lög sem minna hefur farið fyrir. Mér finnst fínt að hræra þessu saman.“
Adams sagði skilið við umboðsmann sinn til 44 ára, Bruce Allen, síðla árs 2023 og heldur nú sjálfur utan um öll sín mál. Þá stofnaði hann eigin plötuútgáfu, Bad Records, síðasta haust og kemur Roll with the Punches út undir því merki. „Nú er ég sjálfstæður og óháður listamaður sem ræður sér alfarið sjálfur, þannig að það eru spennandi tímar fram undan. Ég er mjög spenntur að gefa Roll with the Punches út og fylgja henni eftir,“ segir hann.
– Ferill þinn spannar næstum hálfa öld. Hefurðu enn jafn gaman af því að ferðast og koma fram eins og þú hafðir þegar þú varst að byrja?
„Ég hef meira gaman af því í dag; ég á miklu fleiri lög til að spila. Ég vona líka að mér hafi farið aðeins fram. Ég kann alla vega fleiri grip. Svo er ég augljóslega orðinn miklu myndarlegri,“ segir hann og hlær. „En að öllu gríni slepptu hefur það alltaf skipt mig miklu máli að ferðast og koma fram. Ég hef verið duglegur við það gegnum tíðina og það er að ég held aðalástæðan fyrir því að lögin mín lifa. Undanfarið ár hef ég meðal annars komið fram á Indlandi, í Ástralíu og Mið-Austurlöndum og þetta er alltaf jafngaman. Þess vegna held ég áfram.“
– Hver er galdurinn á bak við það að njóta enn vinsælda og skipta enn máli sem listamaður, öllum þessum árum seinna?
„Úff, ég hef ekki minnstu hugmynd um það. Ekki einu sinni reyna að spyrja mig. Hverjum er svo sem ekki sama?“
– En hvað með rokktónlist sem slíka? Lifir hún enn góðu lífi?
„Það sýnist mér. Ég er enn að túra, eins fjölmargir kollegar mínir og sum stærstu tónleikabönd heims koma úr rokkinu. Þannig að já, rokkið er enn við góða heilsu.“
– En eru þetta ekki mest eldri listamenn og bönd?
„Jú, það er alveg rétt. Yngra fólkið hefur meiri áhuga á að spila tölvuleiki en að spila á gítar. En við megum ekki láta það á okkur fá, heldur halda bara áfram.“
Sjálfur óx Adams úr grasi á sjöunda og áttunda áratugnum, „þegar rokkið var upp á sitt allra besta“, eins og hann orðar það. Þannig að hann hlaut að verða fyrir sterkum áhrifum. „Það var eiginlega ómögulegt annað en að verða fyrir áhrifum frá öllum þessum böndum. Sjálfur heillaðist ég mest af röddum. Söngvurum með karakter og böndum sem sungu fjölraddað, eins og Everly-bræður og Bítlarnir. Söngvarar eins og Janis Joplin og Joe Cocker gripu mig líka snemma. Eins Steve Marriott og Rod Stewart. Þannig að ég varð fyrir áhrifum frá fólki sem sótt hafði sín áhrif annað, ekki síst í sálartónlistina. Þá er ég að tala um menn eins og Sam Cooke og Ray Charles og eigi ég að tilgreina uppáhaldssöngvara minn myndi ég ábyggilega segja Ray Charles.“
Adams hóf vegferð sína sem tónlistarmaður seint í sjöunni og sló rækilega í gegn snemma í áttunni, með plötum á borð við Cuts Like a Knife og sérstaklega Reckless. Hann er mjög þakklátur fyrir að hafa verið hluti af þeirri líflegu senu. Áttan hafi verið góður áratugur fyrir dægurtónlist. „Það sem ég er ekki síst þakklátur fyrir er að plötur voru enn gerðar með gamla laginu á þessum tíma; hljómsveit var komið fyrir í hljóðveri og maður reyndi að semja eins mörg góð lög og hægt var og gefa út plötu. Stundum gekk það, stundum ekki, en oftast tókst okkur vel upp enda mættum við yfirleitt vel undirbúnir til leiks. Við lærðum líka hvernig taka á upp plötur, af upptökumönnum sem bjuggu að góðri reynslu úr sjöunni og kunnu vel til verka. Það gat verið skemmtileg rimma að fá þessa gaura til að gera hlutina öðruvísi. Sándið var stöðugt að breytast og maður prófaði sig bara áfram. Á þessum tíma fór ég að vinna með manni að nafni Bob Clearmountain, sem var á svipaðri línu og ég, og við prófuðum okkur bara áfram þangað til við fundum sándið sem okkur líkaði. Við vorum að vinna í hljóðveri með fremur þurru hljóði og það eina sem við þurftum að gera var að opna dyrnar og koma hljóðnemum fyrir frammi í lagerrýminu og allt í einu vorum við komnir með geggjað sánd. Það varð sándið mitt í áttunni.”
Færri vita það líklega en Bryan Adams er líka liðtækur ljósmyndari og starfar raunar sem slíkur meðfram ferli sínum sem tónlistarmaður. Hann segir þann feril hafa undið jafnt og þétt upp á sig. Til að byrja með hafi hann myndað á tónleikaferðum og í hljóðverinu og fyrir plötuumslög og fleira. Eftir hann liggja nokkrar ljósmyndabækur og er sú nýjasta, Shot by Adams, væntanleg síðar á þessu ári.
Hann segir þetta tvennt fara vel saman, tónlist og ljósmyndun. „Það er sama hvar maður stendur í listum, maður þarf alltaf að búa að einhverri sýn. Síðan er bara spurning hvort maður gerir hlutina sjálfur eða fær aðra til að gera þá fyrir sig. Eftir á að hyggja hefði ég gjarnan viljað hafa byrjað fyrr að skipta mér af listrænu útliti platnanna minna. Sumt af því sem ég var að gera þá hefði jafnvel komið betur út en það sem varð á endanum ofan á. Það gildir samt einu, þetta var bara hluti af nauðsynlegu lærdómsferli.“
Adams segir nálgun sína þá sömu hvort sem hann er að semja tónlist eða taka myndir. „Upphafspunkturinn er alltaf sá sami, maður er ekki með neitt. Síðan fikrar maður sig áfram og stendur á endanum uppi með eitthvað svalt.“
– Ætlarðu að taka myndavélina með til Íslands?
„Já, og ekki bara myndavélina, ég ætla að taka upp tónlistarmyndband þarna. Það hef ég raunar gert áður, í níunni. Hluti af myndbandinu við lagið Do I Have to Say the Words var tekinn upp á Íslandi.“
– Þekkirðu þá þessa einstöku birtu sem margir ljósmyndarar tala um þegar þeir heimsækja Ísland?
„Ég skal ekki segja. Það var dimmt og rigndi mikið í bæði skiptin sem ég hef myndað á Íslandi. En það er í góðu lagi, það er birta í sjálfu sér, og ég vona að veðrabrigðin verði margvísleg þegar ég mæti með myndavélina. Það myndi bara gera myndbandið enn meira spennandi.“
Bryan Adams er fæddur í Kanada en foreldrar hans er breskir. Faðir hans var diplómati og Adams ólst ekki aðeins upp í Kanada heldur líka í Evrópu, Portúgal og Austurríki, þar sem faðir hans starfaði. Hann hefur búið í bæði Lundúnum og París undanfarin ár en er mikið í Kanada þessi misserin. „Það er út af móður minni, sem orðin er 97 ára gömul. Ég lít til með henni. En alla jafna er ég auðvitað mikið á ferð og flugi.“
Hann kveðst vera þakklátur fyrir að hafa haft tækifæri til að ferðast mikið á yngri árum og sækja skóla í ólíkum löndum. „Fyrir vikið á ég vini um heim allan.“
Tal okkar berst í lokin að framtíðinni. Ætlar Bryan Adams að halda áfram að semja og flytja tónlist?
„Það vona ég svo sannarlega. Ég rúlla bara með höggunum,“ segir hann og vísar í nýju breiðskífuna. „Mér finnst ég eiga nokkur góð ár inni og mun ekki leggja árar í bát svo auðveldlega. Alla vega ekki meðan ég kemst enn upp með þetta. Ég get heldur ekki skrúfað fyrir kranann; hugmyndirnar streyma stöðugt fram. Og þá fylgja lögin vonandi í kjölfarið.“
– Sástu fyrir þér þegar þú varst að byrja að þú ættir eftir að verða enn að á sjötugs- og jafnvel áttræðis- eða níræðisaldri, eins og The Rolling Stones?
„Nei, nei, nei. Alls ekki. Ég hugsaði ekki fram á næsta ár á þeim tíma, ekki einu sinni fram í næstu viku. Það er engin leið að spá fyrir um framtíðina. En maður getur hugsað vel um sig. Og vonað það besta.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.