Breski málarinn David Hockney er orðinn veikburða á líkama en ástríða hans er sú sama og áður og hann lét áhyggjur af heilsufari sínu víkja þegar skipuleggja þurfti sýningu sem hann lýsir sem þeirri umfangsmestu á löngum ferli sínum.
Sýningin er haldin í Louis Vuitton-stofnuninni í París og er þar að finna um 400 verk á fjórum hæðum eftir einn eftirsóttasta núlifandi listamann jarðar.
Áhersla er lögð á síðasta aldarfjórðung ferils hans eins og nafn sýningarinnar, David Hockney, 25, ber vitni, en þar er þó að finna verk allt frá upphafi ferils hans með viðkomu víðar á ferlinum, þar á meðal velsældartímum hans í Kaliforníu á sjöunda áratugnum.
Þar eru líka nokkur áður óséð verk frá síðustu tveimur árum, þar á meðal akrílsjálfsmynd og sláandi hugleiðing um lífið eftir dauðann innblásin af Hinum guðdómlega gleðileik Dantes.
„Hann hefur náð að horfa til baka með jákvæðum hætti,“ sagði Norman Rosenthal, gestasýningarstjóri og gamall vinur Hockneys, í samtali við AFP áður en sýningin var opnuð 9. apríl. „Hann er mjög, mjög ánægður með sýninguna.“
Hockney, sem orðinn er 87 ára gamall, krafðist þess að hafa umsjón með sýningunni, lét sig meira að segja litinn á veggjunum varða og gerði leiðréttingar við skýringartextana sem ætlaðir eru sýningargestum.
„Hann segir að þetta sé umfangsmesta sýningin á ferli hans,“ sagði Suzanne Page, sýningarstjóri hjá Louis Vuitton-stofnuninni, við AFP. „Hann hefur tekið mikinn þátt í uppsetningunni.“
Hockney fæddist árið 1937 í borginni Bradford á Norður-Englandi. Foreldrar hans voru verkamenn. Viðfangsefni hans hafa verið fjölbreytt, allt frá engjum Yorkshire til sólbakaðra einkaheimila í Kaliforníu.
Á sýningunni í París er herbergi með portrettmyndum, sem og ljóslifandi landslagsmyndir og eftirminnilegar mánaskinsmyndir, sem hann málaði þegar hann bjó í Normandí í Norður-Frakklandi á árunum 2019 til 2023.
Húmor Hockneys er heldur ekki langt undan.
Á nýjustu sjálfsmyndinni er hann að reykja sígarettu og með gult barmmerki, sem á stendur: Hætta stjórnsemi bráðlega.
Undirtitill sýningarinnar er setning sem hann skrifaði í orðsendingu með mynd frá Normandí til vina þegar öllu var skellt í lás í kórónuveirufaraldrinum: „Munið að þeir geta ekki aflýst vorinu.“
Einnig má greina að hér er á ferð maður á lokaskeiði ævi sinnar sem farinn er að hugsa um dauðleika sinn – og að þetta kunni að vera sín síðasta sýning. Stafrænu myndskeiði af sólarupprás í Normandí, sem Hockney bjó til á spjaldtölvunni sinni eins og mörg önnur, lýkur á orðum franska rithöfundarins Francois de La Rochefoucaulds: „Mundu að þú getur ekki horft lengi í sólina eða dauðann.“
Hockney býr nú í London og er í hjólastól og þarf umsjón allan sólarhringinn. Hann sagði í viðtali við The New York Times nýlega að hann væri þakklátur fyrir að vera á lífi. „Jafnvel í fyrra hélt ég að ég yrði ekki hér,“ sagði hann. „En hér er ég enn.“
Hann ferðaðist til Parísar fyrir opnunina og sást til hans í litríkum tvídjakkafötum, sem hann er þekktur fyrir að klæðast, við úthugsaða byggingu Louis Vuitton-stofnunarinnar, sem Frank Gehry hannaði.
Heyrn hans hefur hrakað undanfarna áratugi og í veislu sem haldin var í tilefni af sýningunni var hann í einkaherbergi þar sem hann tók á móti Brigitte Macron forsetafrú og öðrum útvöldum gestum.
Sum nýlegri verka hans hafa fengið blendnar viðtökur, þar á meðal spjaldtölvuverkin frá Normandí. Á sýningunni eru hins vegar einnig sum af klassísku verkunum hans sem eru í einkaeigu og sjaldan sjást opinberlega. Þar á meðal er hin dularfulla „Portrett af listamanninum (laug með tveimur mannverum)“, sem sýnir fyrrverandi elskhuga listamannsins stara ofan í sundlaug í Kaliforníu.
Hún seldist fyrir 90,3 milljónir dollara (rúmlega 12 milljarða króna) á uppboði í New York árið 2018, sem þá var met fyrir verk eftir lifandi listamann.
Í fyrra var gefinn út listi yfir 100 verðmætustu listaverk sem seld hafa verið á uppboði, og voru sex verk eftir Hockney þar á meðal.
Rosenthal, sem nýtur mikillar virðingar í breskum listheimi, talar um Hockney í sömu andrá og Picasso og Monet. „Ég held að þessi sýning sanni að á 60 ára ferli hefur hann aldrei gefið eftir í list sinni,“ útskýrði hann. „Fjölbreytileikinn er ótrúlegur og stöðugleikinn að sama skapi sláandi.“
Og Hockney heldur áfram að skapa.
„Hann hefur náð ákveðnum aldri og gerir sér grein fyrir því. Hann er mikill reykingamaður en ég held að hann vilji halda sínu striki,“ bætti Rosenthal við. „Hann málar á hverjum degi.“
Mynd af Hockney með Camel, eftirlætissígarettu sína, í hönd er á auglýsingaspjöldum fyrir sýninguna og hafa þau verið bönnuð í neðanjarðarlestarkerfi Parísar vegna þess að þau ganga í berhögg við lög gegn reykingum.
Hann segir að þessi ákvörðun sé „fullkomið rugl“.
Sýningin stendur til 1. september.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.