Virginia Giuffre, sem sakaði Andrés prins og fleiri valdamikla menn um að hafa misnotað sig kynferðislega þegar hún var unglingur er látin aðeins 41 árs að aldri.
Giuffre framdi sjálfsvíg á heimili sínu í Vestur-Ástralíu síðastliðinn föstudag.
„Virginia var harður stríðsmaður í baráttunni gegn kynferðisofbeldi og kynlífsmansali. Hún var ljósið sem lyfti svo mörgum sem komust af,“ sagði fjölskylda hennar í yfirlýsingu. „Þrátt fyrir allt mótlætið sem hún stóð frammi fyrir í lífi sínu skein hún svo skært. Hennar verður sárt saknað.“
Hin bandaríska Giuffre, sem bjó í Ástralíu um árabil, varð talsmaður þolenda kynlífsmansals eftir að hún steig fram í margumtöluðu máli auðkýfingsins Jeffrey Epsteins. Giuffre steig fram eftir að frumrannsókn á málum Epsteins lauk, en hann var sakaður um kynlífsmansal á tugum unglingsstúlkna og ungra kvenna.
Giuffre sagðist hafa starfað sem unglingur í heilsulind á Mar-a-Lago Palm Beach-klúbbi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta þegar kærasta Epsteins, Ghislaine Maxwell, hafði samband við hana. Þetta var árið 2000.
Giuffre sagði Maxwell hafa ráðið hana, líkt og svo margar aðrar unglingsstúlkur, sem nuddara Epsteins, en að hún hafi í raun verið gerð að kynlífsþjóni fyrir þau og marga aðra valdamikla vini Epsteins, þ.á.m Andrés prins, þegar hún var 17 og 18 ára.
Eftir að málið komst í hámæli lét prinsinn af konunglegum skyldum sínum og árið 2022 á hann að hafa samið við Giuffre um ótilgreinda upphæð.
Epstein framdi sjálfsvíg í fangelsi árið 2019. Maxwell var fundin sek fyrir mansal og samsæri árið 2021 og afplánar nú 20 ára dóm.
Giuffre var gift Robert Giuffre frá árinu 2002 og eignaðist með honum þrjú börn. Þau skildu fyrr á þessu ári.