Á sýningunni Endurlit á Listasafni Íslands er sjónum beint að verkum gleymds listamanns, Kristjáns Helga Magnússonar, sem lést aðeins 34 ára eftir stuttan og að mörgu leyti óhefðbundinn feril. Hann vakti töluverða athygli í myndlistarsenunni við upphaf síðustu aldar en í dag eru verk hans hins vegar fáum kunn.
„Það er stundum talað um huldukonur í íslenskri myndlist, en við getum sagt að Kristján sé eins konar huldumaður,“ segir Dagný Heiðdal listfræðingur og sýningarstjóri í samtali við Morgunblaðið. „Sýningarnar hans voru vel sóttar og það var mikið skrifað um hann í blöðin á sínum tíma, ekki allt jákvætt og sumt mjög neikvætt. Á fjórða áratugnum vissu þess vegna flestir hver hann var, en svo gleymdist hann og í dag hafa fæstir heyrt á hann minnst.“
Kristján fæddist á Ísafirði og komu teiknihæfileikar hans snemma í ljós að sögn Dagnýjar. Eftir að hann varð munaðarlaus einungis 16 ára gamall flutti hann síðan til Boston í Bandaríkjunum þar sem bróðir hans bjó. Þar lagði hann stund á listnám áður en hann hélt til frekara náms í New York þar sem hann lærði meðal annars hagnýta grafíklist. Í New York kynntist Kristján einnig art deco-listasefnunni sem réð þá ríkjum í menningarlífi stórborgarinnar.
Aðspurð hvernig mann Kristján hafi haft að geyma svarar Dagný að hann hafi verið orkumikill og áræðinn. „Það þótti óvanalegt á þessum tíma að læra í Bandaríkjunum og upphaflega ætlaði Kristján að setjast þar að og verða mannamyndamálari, því það var nóg að gera í þeim bransa þarlendis. Svo kemur hann til Íslands árið 1929 og fer ekki aftur út. Hann segir einhvers staðar að hann hafi dreymt um að mála íslenska náttúru, en svo kynnist hann líka konunni sinni. Þannig að hann verður aldrei þessi mannamyndamálari í Bandaríkjunum sem hann sá fyrir sér á meðan hann var í námi. Í staðinn verður hann landslagsmálari á Íslandi.
Það sem er líka óvanalegt við Kristján er að hann fer að ferðast mjög mikið um allt land og upp á hálendi, líka að vetri til. Það gerðu ekki margir á þessum tíma. Konan hans, Klara Helgadóttir, fór með honum í þessi ferðalög en hún var einmitt mikil íþróttakona og var til að mynda ein þeirra sem kynntu Íslendingum tennisíþróttina. Þannig að hún var ekkert að víla fyrir sér að ferðast eða sofa í tjaldi. Hún hefur verið góður ferðafélagi. Það er til falleg teikning eftir Kristján úr einni af þessum ferðum, þar sem hún er í tjaldinu þeirra.“
Kristján lést árið 1937, aðeins 34 ára að aldri. „Hann átti stuttan feril en var mjög afkastamikill. Alltaf að ferðast og mála og var óhræddur við að sýna erlendis, sýndi til dæmis í Stokkhólmi, London, Amsterdam og víða í Bandaríkjunum,“ segir Dagný og bætir við að eftir því sem næst verður komist hafi Kristján verið fyrstur íslenskra myndlistarmanna til að setja upp einkasýningar á þessum stöðum. Verk hans hafi sömuleiðis hlotið góðar viðtökur erlendis. Neikvæðu viðtökurnar hafi því aðallega komið frá Íslandi.
Spurð nánar út í viðtökurnar hér á landi bendir Dagný á að listrýni hafi verið með örlítið öðru sniði á þessum tíma en þekkist í dag. Kristján hafi sömuleiðis ekki verið sá eini sem fékk neikvæða gagnrýni fyrir verk sín. „Margir sem voru að skrifa í blöðin leyfðu sér til að mynda orðanotkun sem þætti ábyggilega dónaleg í dag. Maður verður jafnvel hissa á sumu því sem gagnrýnendur létu frá sér.“
Þá virðist sérstaklega einum manni, Jóni Þorleifssyni, sem skrifaði undir nafninu Orri, hafa verið í nöp við Kristján. „Orri var sjálfur myndlistarmaður og skrifaði myndlistargagnrýni fyrir Morgunblaðið. Eftir fyrstu sýningu Kristjáns á Íslandi kom Orri með vinsamlegar ábendingar, til að mynda fannst honum að menntun Kristjáns væri ekki nógu góð og að hann ætti að huga betur að litnum í verkum sínum. Ég held að honum hafi fundist að ekki væri hlustað á sig, því tveimur árum síðar var Kristján enn að gera sömu vitleysuna að hans mati.“
Dagný segir Kristján þó ekki hafa látið neikvæða gagnrýni stöðva sig. „Það var til dæmis haldin sýning í Stokkhólmi þar sem tilgangurinn var að kynna íslenska myndlist og helstu listmálarar þjóðarinnar voru valdir til þátttöku. Kristján var ekki valinn en gerði sér lítið fyrir, leigði sýningarsal í Stokkhólmi og hélt einkasýningu á verkum sínum á sama tíma og hin sýningin stóð yfir. Hann var sannarlega orkumikill og lét verkin tala.“
Á sýningunni eru um 50 verk sem gefa breiða mynd af ferli Kristjáns. „Elstu verkin eru frá því að hann var í námi í Bandaríkjunum, svo eru mannamyndir og landslagsmyndir frá Íslandi og svo nokkrar sem hann kallaði hugmyndir,“ útskýrir Dagný. „Þar sér hann fyrir sér víkinga og álfa og jafnvel eldgos sem átti sér aldrei stað. Síðasta myndin, sú sem hann var með á trönunum þegar hann lést, hefur einmitt heitið Hörmungar. Ófullgerð hugmynd.“
Þá verður einnig til sýnis úrval hönnunarverka eftir Kristján sem hann vann fyrir Eimskipafélag Íslands, svo sem auglýsingaspjöld, dagatöl og minjagripir. Listamaðurinn Goddur tók hönnunarverkin saman.
Samhliða sýningunni kemur út yfirgripsmikil bók um ævi og verk Kristjáns H. Magnússonar í ritstjórn Einars Fals Ingólfssonar, sem ættingjar Klöru Helgadóttur eiginkonu Kristjáns standa að. „Þegar Listasafnið gaf út Íslenska listasögu fyrir nokkrum árum benti Hrafnhildur Schram okkur á að Kristján væri maður sem þyrfti að kanna betur, en hún hefur rannsakað þetta tímabil í listasögunni. Það má segja að við höfum tekið þeirri áskorun. Nú hefur Einar Falur ritstýrt þessari stóru og flottu bók og í sambandi við útgáfu hennar kom til tals að halda líka sýningu. Okkur fannst það áhugavert vegna þess að þetta er listamaður sem fáir þekkja og þó að hann hafi átt stutta ævi þá liggur mikið af verkum eftir hann.“
Dagný bætir við að hún mæli með því að fólk kíki bæði á sýninguna og lesi bókina. „Það er ólík upplifun, að skoða verkin og svo að lesa um þau og skoða myndir af þeim.“
Endurlit var opnuð á Listasafni Íslands í gær og stendur yfir til 14. september.
Ný bók um líf og list Kristjáns H. Magnússonar
Mætti andstreymi hér heima
Á opnunardegi sýningarinnar í gær kom einnig út vegleg bók um ævi og feril Kristjáns H. Magnússonar. Að bókinni standa ættingjar Klöru Helgadóttur eiginkonu Kristjáns og er hún gefin út af Veröld. Einar Falur Ingólfsson ritstýrir.
Kristján vakti mikla athygli fyrir list sína við upphaf síðustu aldar og verk hans voru lofuð víða í erlendum fjölmiðlum. Hérna heima mætti hann hins vegar nokkru andstreymi og fékk neikvæða gagnrýni frá listrýni Morgunblaðsins. Starfsferill hans er forvitnilegur fyrir margar sakir, hann lærði til að mynda í Bandaríkjunum sem þótti óvanalegt á þessum tíma og varð að auki fyrstur íslenskra myndlistarmanna til að setja upp einkasýningar í erlendum stórborgum. Þá málaði Kristján landslagið í vetrarbúningi sem var nýjung í íslenskri málaralist.
Í bókinni skrifar Einar Falur um feril Kristjáns og vísar meðal annars í einkabréf hans sem ekki hefur verið vitnað til áður. Dagný Heiðdal listfræðingur skrifar um málverk Kristjáns og Goddur fjallar um hagnýta grafíklist hans.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.