Áhrifavaldurinn Viktoría Kjartansdóttir fór nýverið í sólarhringsferð til Lundúna til að sjá söngkonuna Beyoncé á tónleikum. Ferðin tók þó óvænta stefnu þegar hún sá tónlistarmanninn Harry Styles rölta rólega um götur borgarinnar, eins og hver annar íbúi Lundúna.
Viktoría var stödd í leigubíl á leið á tónleikana og var í þann mund að taka myndband til að sýna frá ferðinni á TikTok þegar Styles gekk fram hjá. Hún varð algjörlega orðlaus þegar Styles gekk fram hjá bílnum. Fólkið í kring virtist aftur á móti ekki gera mikið úr þessu, líkt og slíkt væri daglegt brauð í borginni.
Styles hefur síðustu misseri verið duglegur að njóta hversdagsins í Lundúnum. Hann hefur sést hjóla um miðbæinn, fá sér kaffi og sætabrauð og borða á veitingastöðum í rólegheitum. Klæðaburður hans er afslappaður, með áherslu á þægindi frekar en tískuyfirlýsingar - hettupeysur, víðar buxur og derhúfur eru algengir valkostir hans.
Hér fyrir neðan má sjá myndböndin sem Viktoría birti frá þessari eftirminnilegu ferð: