Lilja Sif Pétursdóttir, fulltrúi Íslands í alþjóðlegu fegurðarsamkeppninni Miss Supranational 2025, var í kvöld krýnd Miss Supranational Europe, sem er einn virtasti titill keppninnar. Hún hlaut einnig titilinn Miss Photogenic 2025, sem veittur er þeim keppanda sem þykir standa sig best fyrir framan myndavélina.
Keppnin fór fram síðasta föstudag í Strzelecki Park Amphitheater í Nowy Sącz í Póllandi, þar sem konur frá yfir 60 löndum kepptu til úrslita. Lilja komst fyrst í hóp 24 keppenda sem héldu áfram í keppninni, síðan í 12 manna úrvalshóp og tryggði sér að lokum sigurinn sem Miss Supranational Europe 2025. Með sigrinum er Lilja Sif orðin opinber fulltrúi Evrópu innan keppninnar.
Lilja hefur áður hlotið athygli fyrir sigur í Ungfrú Ísland 2023 og þátttöku í Miss Universe. Með framúrskarandi sviðsframkomu, náttúrulegri útgeislun og fagmennsku hefur hún unnið hug og hjörtu bæði dómnefndar og áhorfenda.
„Ég á erfitt með að lýsa þessari stund. Þetta er ótrúleg viðurkenning og mér þykir óendanlega vænt um stuðninginn sem ég hef fengið frá fólki frá öllum heimshornum. Ég vona að þetta sé hvatning til annarra ungra kvenna að fylgja draumum sínum,“ segir Lilja Sif.
Viðstödd í salnum var Manuela Ósk Harðardóttir, eigandi og stjórnandi Ungfrú Ísland, ásamt meginhluta teymis keppninnar.
„Þetta er ólýsanleg stund. Lilja hefur lagt hjarta sitt og sál í undirbúninginn og sýnt að íslenskur kraftur skín í gegn á alþjóðlegum vettvangi. Við erum ótrúlega stolt af henni – þetta er sigur fyrir hana, fyrir okkur öll og fyrir Ísland,“ segir Manuela Ósk.
Með þessum árangri hefur Lilja tryggt sér mikilvægan sess í alþjóðlegu fegurðarsamfélagi og mun á næstu mánuðum taka þátt í ýmsum alþjóðlegum viðburðum, góðgerðaverkefnum og kynningarstarfi á vegum Miss Supranational.