Fjörutíu og sex þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi standa á bak við þingsályktunartillögu sem hefur verið lögð fram um rannsókn á orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana.
Fjörutíu og sex þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi standa á bak við þingsályktunartillögu sem hefur verið lögð fram um rannsókn á orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana.
Fjörutíu og sex þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi standa á bak við þingsályktunartillögu sem hefur verið lögð fram um rannsókn á orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana.
Bent er á að andlátum vegna óhappaeitrana hafi fjölgað mikið frá aldamótum til og með árinu 2021.
Ingibjörgn Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Fram kemur, að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að styðja rannsóknarverkefni sem starfshópur á vegum Lífsbrúar, miðstöðvar sjálfsvígsforvarna, hjá embætti landlæknis hafi sett af stað um orsakaferli sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana.
„Afla skal nauðsynlegra gagna og uppsetning þeirra studd svo að rannsóknin skili árangri sem nýtist við að ná til einstaklinga í áhættuhópum og öðlast betri skilning á orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana. Starfshópurinn skili skýrslu til ráðherra með viðeigandi tölfræði og tillögum að aðgerðum, bæði fyrirbyggjandi og sem nýtast í forvarnastarfi,“ segir í þingsályktunartillögunni.
„Tryggja skal að hægt verði að skoða framangreindar breytur reglulega og á aðgengilegan hátt til að meta árangur aðgerða. Í kjölfarið verði ákveðið hvort koma eigi á fót sambærilegum starfshópi eða rannsóknarnefnd innan stjórnsýslunnar.“
Tekið er fram í greinargerð að þingsályktunartillagan hafi verið fyrst lögð fram á 154. löggjafarþingi og sé nú endurflutt með talsverðum breytingum í ljósi þróunar á því verkefni sem tilgreint hafi verið í fyrri ályktun.
Fram kemur í greinargerðinni að rannsóknir lögreglu og héraðslækna eftir andlát séu gerðar til að ákveða hvort það hafi borið að með saknæmum hætti. Ef það er ekki raunin sé almennt ekki aðhafst meira. Rannsókninni lýkur og orsökin er skráð í dánarmeinaskrá. Það á m.a. við ef um sjálfsvíg er að ræða. Þess vegna komi ekki fram þeir þættir sem kynnu að hafa komið einstaklingnum í það hugarástand sem hann hafi verið í við andlátið.
„Flutningsmenn þingsályktunartillögu þessarar telja nauðsynlegt að slík rannsókn fari fram með þeim hætti að fara afturvirkt yfir heilsufarslegar upplýsingar, lýðfræðilegar breytur, aðstæður, atburði og möguleg áföll sem einstaklingurinn upplifði í undanfara sjálfsvígs eða óhappaeitrunar. Þá er m.a. átt við brottfall úr skóla, atvinnumissi eða langvarandi atvinnuleysi, sambandsslit, ástvinamissi, ofbeldi, neyslu vímugjafa og hvað annað sem getur haft áhrif. Með rannsókn á borð við þá sem starfshópur Lífsbrúar starfar að nú þegar og fjallað er um í greinargerð þessari er hægt að ná til þeirra þátta.“
Þá segir að andlátum vegna óhappaeitrana hafi fjölgað mikið frá aldamótum til og með 2021. Ef litið sé til allra lyfjaflokka þá séu svefnlyf og róandi lyf algengust. Þá eru ekki meðtalin lyf eða efni eins og ópíóíða- og ofskynjunarlyf.
„Á árabilinu 2017–2021 létust að meðaltali 20 á ári vegna óhappaeitrana. Hefur tíðni í þessum flokki aukist frá árabilinu 2000–2006 til áranna 2017–2021 úr 2,3 í 7,6/100.000 íbúa, langmest hjá körlum. Nær 65% dauðsfallanna er af völdum ópíóíða- og ofskynjunarlyfja og fer fjöldi þeirra vaxandi. Þetta eru efni sem koma til landsins eftir smyglleiðum og eru keypt og seld í undirheimum, oft íblönduð enn hættulegri efnum. Það er ljóst að fjölgun þessara dauðsfalla er mikil, hjá körlum og konum.“
Tekið er fram að sjálfsvíg og andlát vegna óhappaeitrana séu viðkvæmt samfélagslegt málefni og þeim fylgi alltaf sorg. Þau hafi mikil áhrif á aðstandendur og jafnvel heilu samfélögin. Áhrifin teygi anga sína víða en samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni verði að meðaltali 135 einstaklingar fyrir verulegum áhrifum af hverju sjálfsvígi, sem leitt geta til heilsubrests til styttri eða lengri tíma.
„Talið er að um sex þúsund manns verði fyrir áhrifum af sjálfsvígum á hverju ári hér á landi. Samfélagið vill gera betur, grípa einstaklinga í áhættuhópum, ráðast í fyrirbyggjandi aðgerðir, efla forvarnastarf og bjóða upp á sálræna aðstoð fyrir bæði einstaklinga í áhættuhópum og aðstandendur þeirra. Við höfum þörf fyrir að ávallt fari fram rannsókn, svo að komast megi að því hvað hafi gerst og finna alla annmarka sem eru á öryggisneti samfélagsins.“
Bent er á í tillögunni, að markmiðið sé ávallt að grípa einstaklinginn, koma í veg fyrir að sjálfsvígshugsanir hans leiði til sjálfsskaða og jafnvel dauða. Forvarnastarf af þessu tagi sé flókið þar sem áhættuþættir séu margir: andlegir, líkamlegir, umhverfislegir og félagslegir. Oftar en ekki sé það samspil fjölda mismunandi þátta sem leiði til þess að einstaklingur gerir tilraun til sjálfsvígs. Þar skipti saga hvers og eins máli.
„Þessa framangreinda þætti væri hægt að rekja í hverju tilfelli fyrir sig og mynda gögn út frá orsakaferli, finna sameiginlega þætti og útbúa gögn. Með þeim gögnum getum við eflt bæði forvarnastarf og vinnu við fyrirbyggjandi aðgerðir.“