Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar vill ekki segja af eða á um það hvort flokkur hennar setji aðildarviðræður við Evrópusambandið sem skilyrði fyrir stjórnarmyndun eða ekki.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar vill ekki segja af eða á um það hvort flokkur hennar setji aðildarviðræður við Evrópusambandið sem skilyrði fyrir stjórnarmyndun eða ekki.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar vill ekki segja af eða á um það hvort flokkur hennar setji aðildarviðræður við Evrópusambandið sem skilyrði fyrir stjórnarmyndun eða ekki.
Þetta kemur fram í viðtali við hana í Spursmálum þar sem ummæli Guðbrands Einarssonar, oddvita flokksins í Suðurkjördæmi, eru borin undir hana þess efnis að slík krafa yrði skilyrði fyrir stjórnarmyndun af hálfu Viðreisnar.
„Ég skynja þessa ástríðu sem hann hefur meðal annars eins og mjög margir í Viðreisn hafa að við fáum alla vega tækifæri til að klára þessar aðildarviðræður til að sjá niðurstöður af samningum. Treysta þjóðinni til að taka þetta skref og þar fyrir utan þá kemur Guðbrandur úr þeim armi verkalýðshreyfingarinnar sem hefur talað fyrir ábyrgu nýju vinnumarkaðsmódeli en ekki síður hinu á sínum tíma að tala fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þannig að við verðum líka að sjá hvaðan hann kemur. Og svona er Viðreisnarhjartað, Evrópusambandið er ekki markmið í sjálfu sér heldur er hluti af þeirri leið […], við teljum það einfaldlega hluta af þeirri leið okkar að ná markmiðinu um samkeppnishæft Ísland, um betri lífskjör og þá teljum við Evrópusambandið vera þá leið,“ segir Þorgerður.
Hún segist hins vegar virða þá sem eru á öndverðum meiði í þessu máli.
„En það sem við erum að segja núna, og það er að vissu leyti ákveðin málamiðlun af hálfu okkar í Viðreisn, við treystum þjóðinni til að taka næsta skref, það er mjög varfærið skref að hún fái að segja til um það hvort það eigi að klára samninga við ESB og það er nákvæmlega það sama og Sigmundur, þá formaður Framsóknarflokksins, og Bjarni sögðu í maí 2013 eftir myndun ríkisstjórnarinnar, já við ætlum að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðnanna.“
En setur þú þetta ekki sem skilyrði?
„Skiptir máli hvaðan gott kemur?“
Það er mikið rætt um aðalleikara og aukaleikara hjá Samfylkingunni, þú ert aðalleikarinn hjá Viðreisn
„Við erum mörg aðalleikarar þar.“
Nei, það er einn aðalleikari. Ætlar þú að setja það sem skilyrði fyrir stjórnarmyndun að það verði gengið til þjóðaratkvæðis um inngöngu í Evrópusambandið?
„Pólitík er ekki krossapróf. Pólitík er list hins mögulega og ómögulega. Viðreisn fór í 10 mánuði í ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Þar var klásúla um það að fyrir lok kjörtímabilsins myndi Alþingi taka afstöðu til framhalds viðræðnanna. Það hefði í síðasta lagi verið 2020. Þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hefur opnað á þetta. Áslaug Arna í viðtali hjá ykkur.“
Pólitík er ekki krossapróf en þessi þáttur er heldur ekki um sagnfræði. Spurningin er þessi, setur þú þetta sem skilyrði eða ekki?
„Ég skal svara því þegar ég heyri aðra flokka, ekki síst gamla fjórflokkinn, segja nei, við treystum ekki þjóðinni. Ég vil fá spurninguna fyrst til þeirra: treystið þið þjóðinni til að taka næsta skref og þá skal ég svara spurningunni.“
Þetta snýst ekki um það.
„Jú, jú. Þetta snýst um það.“
Þú vilt ekki svara því hvort þið setjið það sem skilyrði.
„Ég er að segja að ég vil heyra aðra flokka segja við mig, hvort sem það er Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn, Framsóknarflokkurinn eða Samfylkingin, Þorgerður, við treystum ekki þjóðinni fyrir næsta skrefi.“
Samfylkingin er fylgjandi því að fara í Evrópusambandið. Ef þú myndar meirihluta með þeim, þetta eru þeir flokkar sem njóta mests fylgis núna ítrekað í könnunum, þá er ekkert að vanbúnaði að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu eða beint í aðildarviðræður.
„Nei, það er alveg skýrt. Það er ekki farið beint í aðildarviðræður. Við förum alltaf í þjóðaratkvæðagreiðslu á undan. Og það er mikil málamiðlun af okkar hálfu.“
Ef þetta er skýrt, af hverju er þá hitt ekki eins skýrt? Kjósendur eru að fara að ganga að kjörborðinu 30. nóvember. Er ekki eðlilegt að þeir viti hvort þið setjið þetta sem skilyrði eða ekki þegar Guðbrandur Einarsson, sem þú segir að sé ekki aukaleikari heldur einn af aðalleikurunum … kannski fær hann Óskarinn fyrir karlhlutverkið og þú kvenhlutverkið? Hann segir: þetta er skilyrði.
„Ja, það þarf að skrifa handrit með þér.“
Það er mjög óþægilegt að það séu svona rosalega misvísandi skilaboð hjá oddvitunum.
„Það eru ekki misvísandi …“
Það eru víst misvísandi skilaboð. Hann segir þetta er skilyrði, þú segir ég ætla ekki að sýna á spilin.
„Stefán Einar, þetta sýnir ástríðuna meðal annars hjá Bubba. Hann er raunar …“
Ræður hann ekki við sig?
„Heyrðu, þú verður líka að vita hvaðan hann kemur.“
Hefur þú ekki ástríðu fyrir þessu þá?
„Jú, ég hef mikla ástríðu fyrir þessu.“
En samt svarar þú þessu ekki.
„Það er rétt hjá þér, við erum eini flokkurinn sem segir gjörðu svo vel, þetta er ríkisstjórnarmyndunarborðið, þú ert Sigmundur, Bjarni, Sigurður Ingi eða Kristrún, þetta er það sem ég vil fá að ræða, við erum eini flokkurinn sem segir við ætlum að fá þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu um framhald viðræðna því við treystum þjóðinni.“
Þorgerður segist bjartsýn á að sátt náist um þetta atriði þegar kemur að því að mynda nýja stjórn að afloknum kosningum.