Þorgerður geti virkað sem límið í samstarfinu

Alþingiskosningar 2024 | 13. desember 2024

Þorgerður geti virkað sem límið í samstarfinu

„Þær eru ólíkar, hafa ólíkan bakgrunn, þekkingu og reynslu. Og það getur bara verið mjög góð blanda ef þær koma sér saman um skýra framtíðarsýn og hvernig þær ætla að sigla í áttina að þeirri framtíðarsýn að ná markmiðum sínum.“

Þorgerður geti virkað sem límið í samstarfinu

Alþingiskosningar 2024 | 13. desember 2024

Valkyrjurnar hafa ólíkan bakgrun, þekkingu og reynslu, sem getur verið …
Valkyrjurnar hafa ólíkan bakgrun, þekkingu og reynslu, sem getur verið góð blanda að mati Sigurðar. mbl.is/Karítas

„Þær eru ólíkar, hafa ólíkan bakgrunn, þekkingu og reynslu. Og það getur bara verið mjög góð blanda ef þær koma sér saman um skýra framtíðarsýn og hvernig þær ætla að sigla í áttina að þeirri framtíðarsýn að ná markmiðum sínum.“

„Þær eru ólíkar, hafa ólíkan bakgrunn, þekkingu og reynslu. Og það getur bara verið mjög góð blanda ef þær koma sér saman um skýra framtíðarsýn og hvernig þær ætla að sigla í áttina að þeirri framtíðarsýn að ná markmiðum sínum.“

Þetta segir Sigurður Ragnarsson, deildarforseti viðskiptafræðideildar Háskólans á Akureyri, sérfræðingur í leiðtogafræðum og forystuþjálfari, um konurnar þrjár, formenn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins, sem standa nú að stjórnarmyndunarviðræðum. Stundum kallaðar Valkyrjunar.

Leiðtogi getur ekki verið eyland

Sigurður hefur sér til gamans greint, meðal annars, formenn flokka og frambjóðendur út frá leiðtogafræðum og mbl.is fékk hann til að greina þær Kristrúnu Frostadóttur, formann Samfylkingarinnar, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formann Viðreisnar, og Ingu Sæland formann Flokks fólksins, út frá þeirri hugmyndafræði.

„Forysta samanstendur af þremur þáttum. Það er forystumanneskjan sjálf, síðan eru það fylgjendurnir því maður getur ekki verið leiðtogi ef maður er eyland, svo eru það kringumstæðurnar. Þær aðstæður sem maður er í, þær geta verið bæði hagstæðar og óhagstæðar,“ útskýrir Sigurður.

„Fagleg og árangursrík forysta snýst um að hafa skýra framtíðarsýn, hafa markmið og hafa áhrif á fólk, ekki bara á sjálfan sig. Hér er lykilatriði að allir gangi í takt og vinni saman að settum markmiðum.“

Um sé að ræða ferli samskipta á milli leiðtoga og fólks. 

Sigurður Ragnarsson, forseti viðskiptafræðideildar Háskólans á Akureyri, séfræðingur í leiðtogafræðum …
Sigurður Ragnarsson, forseti viðskiptafræðideildar Háskólans á Akureyri, séfræðingur í leiðtogafræðum og forystuþjálfari. Ljósmynd/Háskólinn á Akureyri

Kom inn í stjórnmálin eins og stormsveipur

Sigurður segir að sé Kristrún mátuð við leiðtogafræðina, sé hægt að segja að hún sé dæmigerður umbreytingaleiðtogi. Í því felist meðal annars að hafa mjög hrífandi og skýra framtíðarsýn.

„Hún kom mjög sterkt inn í stjórnmálin, nánast eins og stormsveipur og hefur rifið Samfylkinguna upp, ef við horfum bara á fylgið. Þetta gerði hún með hrífa fólk með sér innan flokksins og aflaði sér mikils stuðnings, sem er akkúrat það sem umbreytingaleiðtogar gera. En á sama tíma var hún óhrædd við að fara nýjar leiðir. Þetta var ekkert endilega vinsælt í flokknum, það voru alveg ákveðin átök, ágreiningur og skoðanaskipti þar.“

Kristrún hafi þannig náð að marka ný spor í flokkinn um leið og hún kom þar inn.

Sýndi hugrekki og setti erfitt mál á dagskrá

Sigurður segir að hana hafa gert það sem er dæmigert fyrir umbreytingaleiðtoga, að taka mál og sýna ákveðið hugrekki með setja það á dagskrá.

„Sem dæmi, hún fór að ræða um landamærin, að það þyrfti að ræða og skilgreina skynsamlegan ramma í kringum landamærin okkar. Þetta var ekkert sem hafði verið að heyrast mikið í Samfylkingunni fram að þessu.“

Þá komi Kristrún fyrir, hún sé mælsk og vel undirbúin. Mjög einbeitt og láti ekki slá sig út af laginu.

Hvað varðar kringumstæðurnar hefur Sigurður metið að þær séu mjög hagstæðar fyrir hana, sérstaklega vegna þess hve efnahagsmálin eru fyrirferðamikil.

„Hún er á heimavelli þar, hún er að koma úr bankageiranum og hefur þekkingu á fjármálum. Þetta hefur hjálpað henni að afla sér trausts og virðingar í þessum efnum. Í raun og veru eru ekki margir sem geta komið svona nýir inn í stjórnmálin og rætt þessi mál af jafn miklu öryggi og þekkingu og Kristrún.“

Inga, Þorgerður og Kristrún fengu sér heitt kakó með rjóma …
Inga, Þorgerður og Kristrún fengu sér heitt kakó með rjóma á meðan þær funduðu.

Dugleg að taka dæmi úr heimi íþrótta

Hvað Þorgerði Katrínu varðar vill Sigurður meina að hún sé svokallaður liðsleiðtogi, en einnig sjáist í henni umbreytingaleiðtogi.

„Við sáum það mjög skýrt í kosningabaráttunni vegna þess að hún var mjög dugleg við að tengja sinn málflutning og áherslur við eitthvað sem tengist liðsheild og mjög dugleg að taka dæmi úr heimi íþróttanna.“

Þorgerður hafi talað um að fólk hafi mismunandi styrkleika og veikleika og þurfi að vinna saman. Þá virðist hún tilbúin að vinna með nánast öllum.

„En hún talar líka fyrir breytingum og er því kannski að hluta til umbreytingaleiðtogi, en þetta getur verið smá blanda,“ útskýrir Sigurður.

Sýndi samhygð og mannlega hlið

„Varðandi eiginleika hennar, maður tekur eftir því að hún hlustar vel og grípur lítið fram í. Hún kemur fram sem glaðlynd og brosmild. Hún mannleg.“

Sigurður rifjar upp jólagjafaleik sem leiðtogarnir tóku þátt í við lok kappræðna á RÚV kvöldið fyrir kosningarnar, þegar Þorgerður gaf Arnari Þór Jónssyni oddvita Lýðræðisflokksin gjafabréf í baðlón því henni fannst hann þurfa á því að halda að gera vel við sig og slaka á. Var hann þá búinn að fara í gegnum tvær kosningabaráttur á skömmum tíma og missa föður sinn.

„Þarna sýndi hún raunverulega samhygð og mannlega hlið. Það má líka tengja margt sem hún gerir við sanna forystu. Hún virðist koma fram sem hún sjálf.“

Þá metur Sigurður kringumstæður Þorgerðar einnig hagstæðar. 

„Aðallega út frá því að margt fólk á hægri væng stjórnmálanna virtist vera óákveðið og jafnvel óánægt með Sjálfstæðisflokkinn og það virðist vera að fylgið hafi runnið svolítið til hennar út af því.“

mbl.is/Eyþór Árnason

Bæði þjónar og leiðir

Ingu Sæland tengir Sigurður sérstaklega við þjónandi forystu. Sú hugmyndafræði snúist í grunninn um að bæði þjóna og leiða. Báðir eiginleikar þurfi að vera til staðar.

„Þjónandi leiðtogar eru staðar fyrir sitt fólk. Leggja áherslu á að hjálpa fólkinu í kringum sig að vaxa og dafna, en vilja á sama tíma veita forystu. Í því felst að hafa skýra sýn og skýr markmið og oft á tíðum hafa hugrekki til að fylgja sinni sýn og markmiðum.“

Sem dæmi í þessu sambandi bendir Sigurður á það að Inga hafi undirstrikað að hún og Flokkur fólksins berjist fyrir þá tekjulægstu og þá sem minna mega sín í samfélaginu. Það sé í samræmi við þjónandi hlutann.

Hefur orðið tárvot og reið

Hvað varðar forystuhlutann þá tali Inga um að stjórnin þurfi að axla ábyrgð og hugsa um þá sem þurfi á aðstoð að halda. Ábyrgð stjórnmálafólks.

„Varðandi eiginleika, þá hefur hún alltaf sýnt hugrekki. Hún þorir að synda á móti straumnum og hafa öðruvísi skoðanir. Hún talar oft af gríðarlega mikilli sannfæringu og krafti. Notar oft tilfinningar, hún hefur orðið tárvot og reið. Það er allur tilfinningaskalinn hjá henni.“

Sigurður metur einnig kringumstæður Ingu hagstæðar vegna mikillar umræðu í samfélaginu um fátækt og áskoranir bæði ungs og eldra fólks. 

Fjölbreytileikinn oft jákvæður

Sigurður telur að það geti verið kostur að svo ólíkir einstaklingar komi saman, sérstaklega þegar liðsleiðtogi er í hópnum.

„Samkvæmt þessu getur Þorgerður Katrín verið sú manneskja sem getur virkað sem límið í þessu. Hún er svo mikið að hugsa liðsheildina og þar kemur sú þekking inn. Án þess að gera lítið úr hinum. Fjölbreytileikinn er líka oft bara svo jákvæður í góðu samstarfi ef fólk getur komið sér saman um málefnin og sýnina.“

mbl.is