„Þetta verður ríkisstjórn sem verður gaman að kljást við í stjórnarandstöðu,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra um líklega ríkisstjórn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins.
„Þetta verður ríkisstjórn sem verður gaman að kljást við í stjórnarandstöðu,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra um líklega ríkisstjórn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins.
„Þetta verður ríkisstjórn sem verður gaman að kljást við í stjórnarandstöðu,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra um líklega ríkisstjórn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins.
Í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun sagði Bjarni að flokkarnir þrír hafi náð að kynda upp miklar væntingar hjá þjóðinni og talað eins og verkefni væru auðveldari en fráfarandi ríkisstjórn hafi rætt um.
Þá segir hann flokkana hafa kynnt, í aðdraganda kosninga, mjög stórtæk plön, bæði á útgjalda- og tekjuhliðinni.
„Um margt voru þau plön algjörlega ósamrýmaleg. Það er mjög erfitt að sjá t.d. hvernig hugmyndir Flokks fólksins og Samfylkingarinnar á útgjaldahliðinni eiga að ríma saman,“ segir Bjarni og heldur áfram:
„En mér sýnist að áður en ríkisstjórnin er tekin til starfa að þá sé hún búin að pakka í vörn. Hún er búin að pakka í vörn með því að senda út skilaboð um það að staðan sé nú kannski miklu erfiðari og kannski sé þetta miklu flóknara og kannski þurfi mjög miklar málamiðlanir.
„Þetta eru nú ekki góð fyrstu merki finnst mér um að við fáum hérna kraftmikla og samhæfa ríkisstjórn.“
Ertu búinn að vera í einhverjum samskiptum við þá flokka sem myndust teljast til minnihlutans, ef ríkisstjórnarsamstarf verður á milli Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins?
„Ég er alltaf í góðum samskiptum við kollega mína í stjórnmálunum. Það hafa alls konar samskipti verið.“
Eins og greint hefur verið frá sýndi skýrsla yfirkjörstjórnar í Suðvesturkjördæmi að á sjötta hundrað kjósenda strikuðu yfir Bjarna og flokksystur hans Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur utanríkisráðherra, en hún skipaði annað sæti listans á eftir Bjarna.
Aðspurður segist Bjarni hafa lítið að segja við útstrikunum en nefnir að þeir sem taki að sér að leiða flokka í stjórnmálum megi gera ráð fyrir því að kjósendur séu ekki alltaf sáttir.
Hann tekur þó fram að hann hafi, engu að síður, fengið yfirgnæfandi sterka kosningu.
„[...] og ef ég hef talið rétt þá er enginn þingmaður, einu sinni enn, sem er með fleiri atkvæði sér að baki heldur en einmitt ég inn í þingið af því við erum í stærsta kjördæminu og við erum með langflest atkvæði greidd í þessu kjördæmi.“
Segist Bjarni vera stoltur af því að vera fyrsti þingmaður stærsta kjördæmisins og að hann hafi mikinn stuðning.
„Þó að við hefðum auðvitað viljað halda þeirri góðu stöðu sem við vorum með í síðustu kosningum, en svona fór þetta í þetta skiptið, atkvæðin dreifðust víðar og jafnar.“