Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, er sagður hafa deilt viðkvæmum upplýsingum um yfirvofandi árás Bandaríkjahers á Jemen með eiginkonu sinni, bróður sínum og lögfræðingi sínum á spjallrás á samskiptaforritinu Signal.
Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, er sagður hafa deilt viðkvæmum upplýsingum um yfirvofandi árás Bandaríkjahers á Jemen með eiginkonu sinni, bróður sínum og lögfræðingi sínum á spjallrás á samskiptaforritinu Signal.
Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, er sagður hafa deilt viðkvæmum upplýsingum um yfirvofandi árás Bandaríkjahers á Jemen með eiginkonu sinni, bróður sínum og lögfræðingi sínum á spjallrás á samskiptaforritinu Signal.
Bandaríski miðillinn New York Times greinir frá þessu.
Áður hefur verið greint frá því að árásin hafi verið rædd á milli Hegseth og fleiri í ríkisstjórn Donalds Trump á annarri spjallrás á Signal. Spjallrásin með eiginkonu Hegseth, bróður og lögfræðingi er því önnur slík spjallrás sem varnarmálaráðherrann deildi viðkvæmum upplýsingum um áform Bandaríkjahers á.
Á meðal þeirra upplýsinga sem Hegseth deildi á spjallrásinni eru flugáætlanir árásaþotnanna sem síðar gerðu árás á Húta í Jemen 15. mars.
Bandaríska tímaritið Atlantic greindi frá fyrsta Signal-spjallhópnum í mars, en ritstjóra tímaritsins, Jefferey Goldberg, var fyrir mistök bætt við í spjallið. Hann gat því fylgst með öllum samskiptunum er þau áttu sér stað dagana fyrir 15. mars. Mike Waltz, þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trumps, stofnaði það spjall.
Hegseth sjálfur stofnaði spjallrásina sem New York Times greinir frá. Inni á þeirri spjallrás var fjöldi fólks sem Hegseth þekkir persónulega og í gegnum vinnu sína, áður en hann tók við embætti varnarmálaráðherra í ríkisstjórn Trumps.
Jennifer Hegseth, eiginkona hans er blaðamaður og fyrrverandi framleiðandi fyrir Fox News. Phil Hegseth, bróðir varnarmálaráðherrans, vinnur fyrir Pentagon og það gerir líka Tim Parlatore, en hann er einnig lögfræðingur varnarmálaráðherrans.
Donald Trump forseti kenndi Waltz að mestu um að umræðuefni spjallrásarinnar á Signal hafi lekið í kjölfar umfjöllunar Atlantic. Hann hefur neitað að reka nokkurn mann fyrir lekann og hefur frekar viljað ræða um hversu árangursríkar árásir hersins á Húta í Jemen hafa verið.
Þrír menn hafa verið sendir í leyfi frá störfum frá Pentagon undanfarna viku vegna rannsóknar á „ótilgreindum leka“ úr varnarmálaráðuneytinu.
Aðstoðarstarfsmannastjórinn Darin Selnick, yfirráðgjafi Dan Caldwell og Colin Carroll svöruðu fyrir sig um helgina og gáfu út yfirlýsingu þar sem þeir sögðu að Pentagon hafi ekki sagt þeim af hverju þeir séu til rannsóknar. Þá hafi þeir ekki fengið upplýsingar um hvort rannsóknin standi enn yfir eða hvort raunverulega sé verið að rannsaka leka.
„Þó að þessi reynsla hafi verið óverjandi, styðjum við áfram verkefni Trump-Vance stjórnarinnar um að gera Pentagon frábært á ný og ná fram friði í gegnum styrk,“ segir í yfirlýsingu þeirra.