Eitt af skilyrðum Vladimírs Pútín Rússlandsforseta fyrir því að binda enda á stríðið í Úkraínu er að leiðtogar Vesturlanda heiti því að hætta að stækka Atlantshafsbandalagið (NATO) til austurs og aflétti hluta af þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi.
Eitt af skilyrðum Vladimírs Pútín Rússlandsforseta fyrir því að binda enda á stríðið í Úkraínu er að leiðtogar Vesturlanda heiti því að hætta að stækka Atlantshafsbandalagið (NATO) til austurs og aflétti hluta af þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi.
Eitt af skilyrðum Vladimírs Pútín Rússlandsforseta fyrir því að binda enda á stríðið í Úkraínu er að leiðtogar Vesturlanda heiti því að hætta að stækka Atlantshafsbandalagið (NATO) til austurs og aflétti hluta af þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi.
Frá þessu er greint á Reuters en miðillinn hefur þetta eftir rússneskum heimildarmönnum sínum sem eru kunnugir samningaviðræðum á milli Úkraínu og Rússlands.
Heimildamennirnir segja Pútín vilja skrifleg loforð frá leiðtogum vestrænna ríkja um að Úkraína, Georgía og Moldóva muni ekki fá formlega aðild að NATO. Eru þetta öll ríki sem voru hluti af Sovétríkjunum.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lengi sagst vilja binda enda á innrásarstríð Rússa í Úkraínu án árangurs. Í gær sagði hann Pútín „leika sér að eldinum“ með því að neita að taka þátt í vopnahlésviðræðum við samninganefnd Úkraínu á meðan rússneski herinn setti aukinn þunga í árásir sínar.
Yfirvöld í Úkraínu hafa ítrekað sagt að Rússland ætti ekki að geta komið í veg fyrir að ríkið gangi í NATO. Bandalagið hefur sömuleiðis talað um að það vilji ekki breyta stefnu sinni vegna kröfu Pútíns en NATO hefur unnið eftir svokallaðri „opnum dyrum“ -stefnu sem þýðir að hvaða ríki sem er geti gengið í NATO svo lengi sem þau séu tilbúin að fylgja skuldbindingum aðildar.
„Pútín er reiðubúinn að semja um frið en ekki á hvaða verði sem er,“ sagði einn heimildarmaðurinn.
Annar sagði að ef Pútín geri sér grein fyrir að hann muni ekki ná friðarsamkomulagi á eigin forsendum muni hann leitast við að sýna Úkraínumönnum og Evrópubúum hernaðarlega getu sína. Sagði hann jafnframt að Pútín væri ekki tilbúinn í málamiðlanir hvað varðar landsvæði.
Þá sagði annar heimildarmaður að stjórnvöld í Rússlandi teldu sig geta haldið áfram hernaðaraðgerðum sínum í mörg ár í viðbót, sama hvaða þvingunaraðgerðum Vesturlöndin myndu beita.