Áður en Hákon Broder Lund ljósmyndari flutti til Íslands var hann skíðakennari í svissnesku Ölpunum. Hann elskar útiveru og er mikill náttúruunnandi og er á því að útivist sé allra meina bót og það sem við þurfum hvað mest á að halda núna.
Áður en Hákon Broder Lund ljósmyndari flutti til Íslands var hann skíðakennari í svissnesku Ölpunum. Hann elskar útiveru og er mikill náttúruunnandi og er á því að útivist sé allra meina bót og það sem við þurfum hvað mest á að halda núna.
Áður en Hákon Broder Lund ljósmyndari flutti til Íslands var hann skíðakennari í svissnesku Ölpunum. Hann elskar útiveru og er mikill náttúruunnandi og er á því að útivist sé allra meina bót og það sem við þurfum hvað mest á að halda núna.
„Áður en ég flutti til Íslands var ég skíðakennari í Ölpunum, í Verbier í Sviss. Þar er eitt besta bratta utanbrautarskíðasvæðið sem aðgengilegt er frá skíðalyftum í Ölpunum,“ segir Hákon Broder Lund ljósmyndari og eigandi Nordr Agency.
„Útiveran hentaði mér mjög vel en hún léttir byrðunum af herðum mér. Ég nýt þess að vera fjarri hávaðanum í borginni, að finna fyrir veðrinu og koma svo aftur inn í hlýjuna. Þetta snýst líka um sjálfsbjörg. Við lifum svo þægilegu lífi að við þurfum að tengjast náttúrunni á ný. Lifa aðeins einfaldara lífi, en lífi sem reynir á okkur,“ segir hann og bætir við að það sé mikilvægt að taka náttúrufegurðina ekki sem sjálfsagðan hlut. „Náttúran er einnig uppspretta ævintýra og adrenalíns. Hún gefur okkur upplifanir sem eru meira gefandi en borgarlífið að mínu mati,“ segir Hákon.
Hákon á rætur að rekja til Íslands, en fæddist í Noregi. Hann kom til Íslands til að læra jarðfræði og kynnast íslenska hluta fjölskyldunnar sinnar betur en móðir hans er Guðrún Elísabet Stefánsdóttir.
„Ég heimsótti afa minn og ömmu, þau Stefán Pálsson og Arnþrúði Arnórsdóttur, í tvær til þrjár vikur á hverju sumri þegar ég var að alast upp sem barn. Ég flutti svo alfarið til Íslands árið 2013 meðan á námi mínu stóð til að kynnast þeim betur. Síðan leiddi eitt af öðru og nú starfa ég hér,“ segir Hákon en þess má geta að Stefán Pálsson afi hans lést árið 2018 en hann var bankastjóri Búnaðarbankans um langt skeið.
Hákon er með gott jafnvægi á milli vinnu og leiks í lífinu og eignar norska hernum margt af því sem hann hefur lært um sig sjálfan á undanförnum misserum. „Í Noregi er herskylda og það fylgdi því mikil útivera að vera í norska hernum. Herinn er bæði krefjandi og gefandi. Ég vildi nýta tíma minn sem best á þessum tíma og valdi því eina af erfiðari stöðunum, sem var að vera landamæravörður. Ég varð svo flokksstjóri á landamærum Noregs og Rússlands.
Meirihluta tímans var varið utandyra, sem ég kunni virkilega vel að meta. Við vorum á skíðum og vélsleða á veturna og í gönguferðum og á fjórhjólum á sumrin. Þetta kenndi mér aga og sjálfstæði sem ég er mjög þakklátur fyrir í dag.“
Í Noregi er hefðin sú að herskyldan hefst strax eftir framhaldsskóla. „Fyrir flesta er þetta í fyrsta skipti sem þú býrð fjarri heimilinu í lengri tíma. Þú þarft að læra að bjarga þér sjálfur og lærir því mikið um þig í þessu ferli. Þá helst hversu langt þú getur ýtt þér, jafnvel þótt þú teljir þig ekki hafa neina orku eftir. Þetta gefur manni líka tækifæri til að endurhugsa hver maður er,“ segir Hákon og útskýrir að heima fyrir séu fjölskylda og vinir sem þekkja þig og hafa ákveðnar væntingar til þín.
„Þegar þú flytur á nýjan stað, eins og í herinn, þekkir þig enginn né heldur bakgrunn þinn. Þá getur þú einbeitt þér að því að þroska hver þú raunverulega ert, en ekki hvað annað fólk býst við af þér. Í þessu ferli, sem er svo dýrmætt að mínu mati, lærir maður að bera kennsl á hvað maður vill fyrir sjálfan sig og hvað maður svo gerir til að uppfylla væntingar annarra.“
Hákon segir ákveðinn hrjúfleika einkenna íslenska náttúru sem honum þykir einstakt. „Veðrið er einnig miskunnarlausara hér en ég er vanur þar sem engin tré eru, og ekkert sem stöðvar vindinn. Styrkleikar íslenskrar náttúru eru að það er alltaf gott útsýni þegar maður fer í gönguferðir. Þar sem Ísland er mjög lítið eru margir áhugamenn um útivist, og ég upplifi þá annaðhvort heltekna af áhugamáli sínu eða þeir eru það ekki. Það er smá allt-eða-ekkert í menningunni okkar hér. Það finnst mér geta verið styrkur okkar, því maður fer þá vanalega í gönguferðir með fólki sem hefur virkilega ástríðu fyrir því sem það er að gera.“
Með hverjum ertu á fjallaskíðum og í fjallgöngum?
„Ég stunda útivist með fjölskyldunni minni og vinum. Sumir vinir mínir stunda skíðagöngu af kappi, svo við förum saman á skíði þegar við höfum tíma,“ segir Hákon.
Hákon hefur frá því hann man eftir sér tekið mikið af ljósmyndum. Hann var einnig í skátahreyfingunni í Noregi, sem hann segir aðeins öðruvísi en á Íslandi. „Skátahreyfingin er mun stærri og skipulagðari í Noregi en hún er hér. Ef til vill því náttúran býður upp á fleiri tækifæri til ýmissa athafna. Í skátahópnum mínum, sem ég tók þátt í að leiða áður en ég flutti til Íslands, höfðum við margar hefðir. Þetta skapaði sterk vinabönd sem enn standa traustum fótum í dag, jafnvel þótt ég hafi flutt til Íslands. Eitt af mínu uppáhaldi á stórum skátaviðburðum var að byggja stór mannvirki úr trjábolum og reipum. Þá notaði maður enga nagla, en byggðum borð, turna, þvottastöðvar og hvað eina. Við höfum mikið af trjám í Noregi, svo við höfum mikið af efniviði til þessara verkefna,“ segir hann.
Hákon segir í tísku í Noregi að vera útivistarsinnaður. „Náttúran í Noregi er mjög mild og aðgengileg og veðrið er stöðugt, svo það er mjög einfalt að fara í gönguferðir. Útivistarfélögin eru stór og með mjög mikið af skipulögðum gönguleiðum um landið allt.“
Hvað hefur náttúran kennt þér?
„Hún hefur kennt mér mikilvægi þess að vera til staðar og því mæli ég með því fyrir alla að skilja bluetooth-hátalarann eftir heima og njóta þess að hlusta á þögnina,“ segir Hákon og bætir við að þar sem hann sé ljósmyndari sé hann oft með litla sérhæfða myndavél í vasanum að mynda náttúrufegurðina sem á vegi hans verður úti. „Þannig tekur maður ekki upp símann og lætur ekki truflast af tilkynningum frá öppum. Sérhæfð myndavél, jafnvel gömul sem þú færð notaða, tekur betri myndir en síminn þinn að mínu mati. Ég mæli með að festa hana bara á bakpokann með Peak Design-klemmu svo hún sé alltaf aðgengileg á bringunni. Því ef hún er ekki auðveldlega aðgengileg þá notar maður hana ekki,“ segir Hákon Broder Lund.