Dyravörður á skemmtistað í Gamla stan í sænsku höfuðborginni lést á sjúkrahúsi aðfaranótt gærdagsins eftir átök er þar brutust út. Til stóð að vísa manni út af staðnum þegar til ryskinga kom milli dyravarðarins og þriggja gesta þar.
Lyktaði þeim með því að dyravörðurinn missti meðvitund og tókst læknum ekki að bjarga lífi hans eftir að hann hafði verið fluttur á sjúkrahús. Gestirnir þrír, sem veittust að verðinum, voru handteknir og eru enn í haldi lögreglu, grunaðir um að hafa veitt dyraverðinum banvæna áverka, eftir því sem saksóknaraembættið greinir sænska ríkisútvarpinu SVT frá.
„Rannsókn málsins mun leiða í ljós hvað varð manninum að bana, margt er enn á huldu varðandi kringumstæðurnar við andlátið,“ segir Susanna Rinaldo, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Stokkhólmi, við SVT.
Segir lögregla rannsókn málsins skammt og veg komna og hafi fleiri verið viðstaddir átökin. „Við munum nú viða að okkur upptökum úr öryggismyndavélum auk annarra upplýsinga og hlýða á framburð vitna,“ segir Rinaldo enn fremur.