Danir banna erlenda þjóðfána

Bann við erlendum þjóðfánum á fánastöngum í Danmörku tekur gildi …
Bann við erlendum þjóðfánum á fánastöngum í Danmörku tekur gildi 1. janúar næstkomandi. AFP

Dönum verður frá 1. janúar næstkomandi ekki frjálst að draga að húni hvern þann fána sem þá lystir. Munu þeir sem flagga fánum annarra þjóða og svæða með fánastöngum eiga yfir höfði sér sektir.

Danska þingið (Folketinget) samþykkti 3. desember síðastliðinn frumvarp dönsku ríkisstjórnarinnar um að innleiða skyldi bann við erlendum fánum á fánastöngum einstaklinga, fyrirtækja og opinberra stofnana.

Í tilkynningu á vef danska dómsmálaráðuneytisins er greint frá því að bannið nái til þjóðfána annarra ríkja og er bent á fána Rússlands, Bandaríkjanna og Spánar sem dæmi. Einnig eru bannaðir svæðisfánar eins og fánar Katalóníu og Tíbets, auk þess sem óheimilt verður að flagga með fána á fánastöng sem jafna má við þjóðfána eða svæðisfána eins og fána Palestínu.

Það er ekki tilviljun að hér sé ítrekað rætt um fánastangir því bannið nær aðeins til fána á fánastöngum.

Bannið nær ekki til norrænna fána.
Bannið nær ekki til norrænna fána. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flagga má íslenskum og þýskum fána

Þó eru fleiri undanþágur frá banninu og verður meðal annars heimilt að flagga finnskum, færeyskum, grænlenskum, íslenskum, norskum, sænskum og þýskum fánum. Fá sendiráð að flagga fánum ríkja sinna við sendiráð og sendiskrifstofur.

Einnig verður heimilt að draga að húni fána alþjóðastofnana eins og Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins, auk regnbogafána, sjóræningjafána og fána með vörumerkjum og merkjum fyrirtækja.

Þá verður dómsmálaráðherra Danmerkur heimilt að veita sérstakt leyfi til að flagga fánum erlendra ríkja við einstakar aðstæður og mun hann hafa þegar veitt leyfi fyrir því að fáni Úkraínu prýði fánastengur Dana.

Einstaklingar og fyrirtæki sem óska þess að draga að húni fána sem ekki er heimilaður í lögunum þurfa að sækja um sérstakt leyfi til lögreglunnar.

Peter Hummelgaard dómsmálaráðherra Danmerkur.
Peter Hummelgaard dómsmálaráðherra Danmerkur. Ljósmynd/Lars Svankjær

Aldargamalt bann fellt úr gildi

Málið má rekja til dóms í hæstarétti Danmerkur 22. júní 2023 er sneri að flöggun bandaríska fánans. Felldi dómstóllinn úr gildi fánabann sem hafði verið í gildi frá 1915, þar sem hann taldi bannið ekki hafa haft fullnægjandi stoð í lögum.

Ákvað ríkisstjórnin í mars á þessu ári að hefja vinnu við frumvarp sem innleiddi bannið á ný og þá með næga lagastoð.

„Dannebrog (þjóðfáni Danmerkur) er mikilvægasta þjóðartáknið sem við eigum í Danmörku. Tákn sem bindur Dani saman sem þjóð og ætti að njóta sérstöðu í Danmörku. Þess vegna fagna ég því að danska þingið styðji þessa sérstöðu með því að innleiða á ný reglur um flöggun, þannig tryggjum við að í Danmörku verður aðeins flaggað með Dannebrog,“ var haft eftir Peter Hummelgaard dómsmálaráðherra Danmerkur á vef ráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert