Tæplega 2.000 fyrirtæki í Finnlandi standa í tengslum við skipulagða brotastarfsemi eftir því sem fram kemur í nýrri skýrslu rannsóknarskrifstofu Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Grey Economy Information Unit, GEIU.
Segja skýrsluhöfundar að stjórnendur umræddra fyrirtækja séu oftar en ekki fyrr- eða núverandi félagar glæpasamtaka, nokkuð sem hafi í för með sér alvarlega áhættu fyrir hagkerfið og samfélagið allt. Er hér um að ræða fyrstu heildstæðu greininguna á tengslum skipulagðrar glæpastarfsemi og löglegs rekstrar í Finnlandi.
Nefna skýrsluhöfundar tæplega 1.900 manns í stjórnunarstöðum fyrirtækja með tengsl við skipulagða glæpastarfsemi og eru 95 prósent þeirra finnskir ríkisborgarar. Sýna niðurstöðurnar, sem leiddar eru fram í samstarfi við finnsku rannsóknarlögregluna, hvernig glæpasamtök nýta fyrirtæki til peningaþvottar, svika og annarra auðgunarbrota.
Um 130 þeirra fyrirtækja sem skýrslan nær til starfa á sviðum sem teljast geta haft í för með sér verulega áhættu, svo sem við öryggismál og þrif. Hafa þessi fyrirtæki hve mesta áhættu í för með sér þar sem hópar í skipulagðri glæpastarfsemi geti valdið mun umfangsmeira tjóni en auðgunarbrot einstaklinga.
„Skipulögð glæpastarfsemi stendur styrkum fótum í finnsku hagkerfi,“ segir Janne Marttinen yfirmaður GEIU, „þessi fyrirtæki koma sér undan skyldum sínum og leggja til skipulagðrar glæpastarfsemi sem gerir það að verkum að bráðnauðsynlegt er að þessum málaflokki sé veitt athygli.“
Áætla skýrsluhöfundar að ríkissjóður Finnlands verði árlega af 40 milljónum evra í skattfé, jafnvirði 5,8 milljarða íslenskra króna, vegna þessarar skuggastarfsemi, en sú tala nær þó eingöngu til starfsemi félaga með takmarkaða ábyrgð svo líkast til er talan mun hærri í raun.
Hið dæmigerða fyrirtæki sem tengist skipulagðri glæpastarfsemi er lítið fyrirtæki í byggingarframkvæmdum, fasteigna- eða bílasölu með starfsstöðvar í Uusimaa, héraðinu sem höfuðborgin Helsinki og nágrannaborgir hennar eru staðsettar í.
Skattskil eru gjarnan í ólestri hjá fyrirtækjunum og er um þriðjungur þeirra í vanskilum með skattgreiðslur. Nánari skoðun nokkurra þessara fyrirtækja leiddi í ljós skattskuld er nam ellefu milljónum evra, jafnvirði 1,6 milljarða íslenskra króna, og höfðu stjórnendur flestra þeirra látið undir höfuð leggjast að telja fram tekjur og arðgreiðslur.
Segja höfundar skýrslunnar að þótt ítök skipulagðrar glæpastarfsemi í finnsku atvinnulífi séu umtalsverð hverfi þau nánast í skuggann af sama vandamáli í Svíþjóð þar sem slík starfsemi kosti samfélagið um níu milljarða evra ár hvert, jafnvirði 1.300 milljarða íslenskra króna.
Hyggst finnska ríkisstjórnin skera upp herör gegn skipulagðri glæpastarfsemi með því að endurskoða aðferðir sínar við baráttu gegn henni og er gert ráð fyrir að þeirri endurskoðun verði lokið nálægt áramótum.