Skrifstofa Benjamíns Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefur staðfest að afhending gísla fari fram í kvöld, „án Hamas-athafna“.
mbl.is greindi frá því á mánudag að Hamas-samtökin hafi sagt næstu skref vopnahlés þeirra við Ísrael vera háð því að sex hundruð palestínskum föngum verði sleppt úr haldi Ísraela líkt og samið var um, en Ísraelar hafi ákveðið á sunnudag að fresta frelsun fanganna, og sakað Hamas-samtökin um að hafa afhent ísraelska gísla með niðurlægjandi hætti.
Vopnahlé aðilanna byggir á því að ísraelsk yfirvöld sleppi palestínskum föngum úr haldi þegar Hamas-samtökin afhenda ísraelska gísla.
Hamas hefur hins vegar framkvæmt fyrri afhendingar opinberlega. Þeir gíslar sem enn hafa verið á lífi hafa verið látnir tala fyrir framan hóp af fólki og taka við gjöfum og vottorðum uppi á sviði áður en þeim hefur verið sleppt.
Talsmaður Hamas hefur sagt að lík ísraelskra gísla verði afhend í næði í kvöld, „til að koma í veg fyrir að Ísrael fyndi einhverja ástæðu fyrir töf eða hindrun“ á afhendingu palestínskra fanga.
Hamas mun því sleppa hefðbundinni afhendingarathöfn sinni þegar þeir skila líkum fjögurra ísraelskra gísla í kvöld, en búist er við að Ísraelar afhendi fleiri en 600 palestínska fanga í skiptum fyrir lík gíslanna, að sögn Hamas.
Skiptin verða þau síðustu undir fyrsta áfanga brothætts vopnahléssamnings á Gaza, sem tók gildi þann 19. janúar.
Nöfn gíslanna eru, samkvæmt Hamas, Ohad Yahalomi, Tsachi Idan, Itzik Elgarat og Shlomo Mansour. Nöfnin hafa verið staðfest af ísraelskum fjölmiðlum.
Enn eiga ísraelskir embættismenn og fjölskyldur gíslanna eftir að staðfesta nöfnin.
Mikla reiði vakti í Ísrael þegar Hamas sýndi líkkistur látinna gísla uppi á sviði við fyrri afhendingu, og kom það í veg fyrir fyrirhugaða lausn palestínskra fanga frá Ísrael í síðustu viku, þar sem Ísrael hefndi sín á Hamas fyrir að skila gíslunum við niðurlægjandi athöfn.
Annar talsmaður Hamas sagði að palestínsku fangarnir sem frestað var að sleppa úr haldi yrðu látnir lausir um leið og líkunum yrði skilað í kvöld.
„Hamas mun afhenda lík fjögurra ísraelskra fanga fyrir miðnætti og í staðinn munu ísraelsk yfirvöld sleppa palestínsku föngunum samtímis,“ sagði hann og bætti við að öðrum, minni hópi palestínskra kvenna og ólögráða barna, sem eiga að verða sleppt í staðinn fyrir líkin, verði sleppt eftir að ísraelsk yfirvöld hafi staðfest deili á látnu gíslunum.
„Þetta fyrirkomulag var gert á grundvelli tillögu sem sáttasemjarar lögðu fram, sem Hamas samþykkti,“ sagði hann.
Ísraelska fangelsisþjónustan sagði fyrr í dag að hún væri að undirbúa að sleppa fangelsuðum hryðjuverkamönnum í samræmi við samninginn um frelsun gíslanna.