„NATO – þú getur gleymt því“

„Ég held að við eigum eftir að ná samkomulagi. Ef …
„Ég held að við eigum eftir að ná samkomulagi. Ef ég hefði ekki náð kjöri tel ég að hann hefði bara haldið áfram að ráðast í gegnum Úkraínu,“ sagði Trump. AFP/Jim Watson

Hefði Donald Trump ekki náð kjöri hefði Pútín haldið áfram árásarstríði sínu í Úkraínu og ekki opnað á möguleika á samningarviðræður, segir Bandaríkjaforsetinn sjálfur.

Þá hefur hann útilokað möguleikann á öryggistryggingu Bandaríkjanna og NATO-aðild fyrir Úkraínu.

Enn fremur sagði hann evrópska bandamenn bera ábyrgð á öryggi Úkraínu en Bandaríkin komi til með að passa upp á að allt gangi eins og skyldi.

„Frábær samningur fyrir Úkraínu“

Trump ávarpaði blaðamenn í dag og sagði að Selenskí myndi heimsækja sig á föstudag og skrifa undir samninginn – eftir mikinn þrýsting frá Bandaríkjunum, sem vildu aðgang að sjaldgæfum auðlindum sem notaðar eru í geimvísindum og annarri tækni.

„Þetta er frábær samningur fyrir Úkraínu líka, af því að þau fá okkur þangað,“ sagði Trump.

Ákveðið öryggi sé veitt Úkraínu með því að hafa Bandaríkjamenn á landinu, af því að enginn muni leggja í átök við Bandaríkjamenn.

En Trump útilokaði að Bandaríkin myndu veita formlegri öryggisábyrgð en það, eins og stjórnvöld í Kænugarði hefur óskað eftir.

„Við ætlum að láta Evrópu gera það,“ sagði Trump. „Evrópa er næsti nágranni þeirra, en við ætlum að tryggja að allt gangi vel.“

Reyna eins og þau geta fyrir Úkraínu

Spurður hvað þyrfti að gera til að binda enda á stríðið útilokaði hann aðild Úkraínu að NATO og endurtók þá afstöðu Rússa, að spurningin um NATO-aðild Úkraínu væri aðalatriði að baki innrásar þeirra.

„NATO – þú getur gleymt því,“ sagði Trump. „Ég held að það sé líklega ástæðan fyrir því að þetta byrjaði allt saman.“

Joe Biden, fyrrverandi forseti, hafði stutt aðild Úkraínu að NATO án þess að gefa upp ákveðinn tímaramma.

Bandaríkin stóðu við hlið Rússa á mánudaginn, á vettvangi Sameinuðu þjóðanna – gegn næstum öllum evrópskum bandamönnum þeirra – með ályktun sem kallaði á skjótan endi á stríðinu, án þess að leggja áherslu á landhelgi Úkraínu.

„Við ætlum að gera það besta sem við getum til að gera besta samninginn sem við getum fyrir báða aðila,“ sagði Trump.

„En fyrir Úkraínu ætlum við að reyna eins og við getum að gera góðan samning svo þeir geti fengið eins mikið til baka og mögulegt er.“

Hefði haldið áfram ef Trump hefði ekki náð kjöri

Trump krafðist þess að hann væri að koma með nýja málamiðlun frá Vladimír Pútín Rússlandsforseta, sem áður hafi „viljað allt“ í Úkraínu.

„Hann er mjög klár maður. Hann er mjög slægur maður,“ sagði Trump um Pútín.

„Ég held að við eigum eftir að ná samkomulagi. Ef ég hefði ekki náð kjöri tel ég að hann hefði bara haldið áfram að ráðast í gegnum Úkraínu.“

Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði Trump á mánudag að Evrópubúar myndu íhuga að senda hermenn til að vernda hvaða samning sem er, en að stuðningur Bandaríkjanna væri mikilvæg leið til að tryggja öryggi.

Búist er við að Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, muni segja slíkt hið sama þegar hann hittir Trump á fimmtudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert