Rússneski skákmaðurinn Boris Spasskí er látinn, 88 ára að aldri. Skáksamband Rússlands tilkynnti um lát hans í dag en ekki fylgdi sögunni hvenær hann hefði látist. Skáksambandið segir að mikill missir sé að Spasskí fyrir Rússland.
Spasskí er frægastur fyrir einvígi sitt við Bobby Fischer hér á landi árið 1972. Það fór fram þegar kalda stríðið stóð sem hæst og var kallað „einvígi aldarinnar“.
Spasskí varð heimsmeistari í skák árið 1969 og hélt þeim titli þar til kom að umræddu einvígi.
Hann fæddist árið 1937 í Leníngrad, í dag Pétursborg. Spasskí þótti mikið efni ungur að árum og varð bæði heimsmeistari í unglingaflokki og yngsti stórmeistari sögunnar á þeim tíma, 18 ára gamall.