Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hét því að koma gíslunum sem eru enn á Gasa til síns heima án þess að verða við kröfum Hamas. Hann sagði stríðið vera á „vendipunkti“.
„Ég trúi því að við getum komið gíslunum okkar heim án þess að verða við kröfum Hamas,“ sagði Netanjahú eftir að Hamas hafnaði tillögu Ísraels um vopnahlé.
„Á þessum tímapunkti þurfum við þolinmæði og ásetning til sigurs.“
Samtök ættingja gíslanna hafa sakað Netanjahú um að hafa „enga áætlun“ um hvernig eigi að frelsa gíslana.
Netanjahú hélt því fram að ef bundið væri enda á stríðið núna myndi það styrkja óvini Ísraels.
„Að binda enda á stríðið núna undir núverandi aðstæðum myndi senda skilaboð til allra óvina Ísraels um að það að ræna Ísraelsmönnum geti knésett Ísrael. Það myndi sýna fram á að hryðjuverk virki og þau skilaboð myndu stofna hinum frjálsa heimi í hættu.“
Netanjahú sagði Hamas krefjast þess að binda enda á stríðið til þess að halda áfram stjórn sinni. Þá sagði hann að brotthvarf Ísraelshers frá Gasa myndi leiða til þess að Hamas myndi styrkjast á ný og þar af leiðandi gera fleiri árásir á Ísrael.
„Ef við skuldbindum okkur við að binda enda á stríðið þá munum við ekki geta hafið bardaga að nýju á Gasa.“