Patrick Crusius sem skaut 23 manns til bana í El Paso í Texas árið 2019 var fyrr í dag dæmdur í lífstíðarfangelsi. Hann á ekki möguleika á reynslulausn í framtíðinni.
Crusius keyrði rúma þúsund kílómetra frá heimili sínu í borginni Allen, sem einnig er í Texas-ríki, til þess að fremja árásina í El Paso en fólk af rómönskum uppruna er þar í miklum meirihluta.
Crusius framdi ódæðisverkið í verslun Walmart en hann sagði árásina vera „svar við innrás fólks af rómönskum uppruna inn í Texas“. Crusius gaf út stefnuyfirlýsingu áður en hann framdi árásina þar sem hann sagðist vera nauðbeygður til þess að verja þjóð sína fyrir því að vera skipt út menningarlega og erfðafræðilega.
Árásin átti sér stað í fyrri embættistíð Donalds Trumps sem Bandaríkjaforseta en Trump sagði opinberlega á sínum tíma að hann vildi að Crusius yrði dæmdur til dauðarefsingar. Ákæruvaldið ákvað að lokum að fara ekki fram á dauðarefsingu.
Sam Medrano, sem dæmdi í máli Crusius, sagði að með árásinni hefði Crusius slátrað feðrum, mæðrum, sonum og dætrum og með því rústað samfélagi sem hafði staðið fyrir kærleik, samstöðu og umburðarlyndi.