Fékk lífstíðardóm fyrir fjöldamorðin

Patrick Crusius framdi fjöldamorðin í því skyni að drepa sem …
Patrick Crusius framdi fjöldamorðin í því skyni að drepa sem flesta af rómönskum uppruna. AFP

Pat­rick Crusius sem skaut 23 manns til bana í El Paso í Texas árið 2019 var fyrr í dag dæmd­ur í lífstíðarfang­elsi. Hann á ekki mögu­leika á reynslu­lausn í framtíðinni. 

Crusius keyrði rúma þúsund kíló­metra frá heim­ili sínu í borg­inni Allen, sem einnig er í Texas-ríki, til þess að fremja árás­ina í El Paso en fólk af rómönsk­um upp­runa er þar í mikl­um meiri­hluta. 

Crusius framdi ódæðis­verkið í versl­un Walmart en hann sagði árás­ina vera „svar við inn­rás fólks af rómönsk­um upp­runa inn í Texas“. Crusius gaf út stefnu­yf­ir­lýs­ingu áður en hann framdi árás­ina þar sem hann sagðist vera nauðbeygður til þess að verja þjóð sína fyr­ir því að vera skipt út menn­ing­ar­lega og erfðafræðilega. 

Árás­in átti sér stað í fyrri embætt­istíð Don­alds Trumps sem Banda­ríkja­for­seta en Trump sagði op­in­ber­lega á sín­um tíma að hann vildi að Crusius yrði dæmd­ur til dauðarefs­ing­ar. Ákæru­valdið ákvað að lok­um að fara ekki fram á dauðarefs­ingu. 

Sam Medrano, sem dæmdi í máli Crusius, sagði að með árás­inni hefði Crusius slátrað feðrum, mæðrum, son­um og dætr­um og með því rústað sam­fé­lagi sem hafði staðið fyr­ir kær­leik, sam­stöðu og umb­urðarlyndi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert