Ríkisstjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hefur lagt fram tillögur til að stilla til friðar á milli Rússlands og Úkraínu sem fela meðal annars í sér að Úkraína fái ekki aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO).
Rússar segjast ánægðir með þá tillögu en vilja að öðru leyti ekkert tjá sig um þann tíma sem þarf til að ná friðarsamningum.
Wall Street Journal (WSJ) greinir frá.
Marco Rubio utanríkisráðherra kynnti hugmyndina sem hluta af tillögupakka á fundi í París í Frakklandi í síðustu viku, samkvæmt heimildum WSJ, með úkraínskum og evrópskum embættismönnum í síðustu viku.
Bandaríkin bíða nú viðbragða frá Úkraínumönnum, en þeirra er vænst á fundi með úkraínskum og evrópskum embættismönnum í Lundúnum síðar í vikunni.
Ef Bandaríkin, Evrópuleiðtogar og Úkraína sammælast um tillögurnar gætu þær síðan verið formlega kynntar fyrir Rússum.
„Við höfum heyrt frá Washington á ýmsum stigum að aðild Úkraínu að NATO komi ekki til greina,“ sagði Dímítrí Peskov, talsmaður rússnesku stjórnarinnar, við blaðamenn á mánudag.
„Þetta er eitthvað sem við erum sátt við og samsvarar okkar afstöðu.“
Peskov neitaði hins vegar að tjá sig um líkur á friðarsamkomulagi og „sérstaklega ekki um tímaramma.“
Donald Trump sagði á sunnudag að hann vonaðist að Úkraína og Rússland næðu samkomulagi í þessari viku.
Auk þess að útiloka aðild Úkraínu að NATO fela tillögur Trump-stjórnarinnar í sér möguleika á að Bandaríkin viðurkenni innlimun Rússa á Krímskaga árið 2014.
Önnur tillaga frá Bandaríkjunum gengur út á að gera svæðið í kringum kjarnorkuverið í Saporisjía-héraði, sem er nú undir yfirráðum Rússa, að hlutlausu svæði sem gæti verið undir bandarískri stjórn.
Fyrr í dag sagði Vladimír Pútín, forseti Rússlands, að rússnesk stjórnvöld hefðu „jákvætt viðhorf“ til allra friðartillagna, en bætti við að Úkraínumenn þyrftu að sýna sambærilegan vilja.
Volodomír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði í dag að hann hefði rætt við Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, fyrir fundinn sem fer fram á miðvikudaginn í Lundúnum.
Hann sagði Úkraínu vera reiðubúna til að fara uppbyggilegar viðræður um að binda endi á átökin.
„Skilyrðislaust vopnahlé verður að vera fyrsta skrefið í átt að friði, og þessi páskahátíð sýndi skýrt að það eru aðgerðir Rússlands sem halda stríðinu gangandi,“ sagði Selenskí í færslu á X.