Tveir 19 ára piltar voru handteknir í Keníu eftir að upp komst að þeir höfðu sankað að sér um 5.000 maurum.
Leikur grunur á að þeir hafi ætlað að smygla skordýrunum úr landi og selja á svörtum markaði. Maurarnir eru eftirsóknarverð gæludýr en hægt er að fylgjast með þeim byggja upp nýlendu í þar til gerðum búrum.
Málið er sagt brjóta gegn lögum um villt dýr en markaðsvirði mauranna er sagt um átta þúsund evrur eða því sem nemur um 1.150 þúsund krónum.
Drengirnir heita Lornoy David og Seppe Lodewijckx. Þeir hafa játað brot sitt en segjast ekki hafa haft hugmynd um að það sem þeir væru að gera væri ólöglegt og að þeir hafi einungis sankað að sér maurunum til gamans.
Þeir komu til landsins sem ferðamenn og hafa verið í varðhaldi frá því þeir voru handteknir 5. apríl. Eftir um tvær vikur mun dómari kveða upp dóm í máli þeirra.
Málið þykir athyglisvert fyrir þær sakir að til þessa hafa stjórnvöld helst haft áhyggjur af veiðiþjófum sem hafa reynt að smygla annars konar dýratengdum hlutum yfir landamærin. Á það einna helst við um beltisdýr en einnig hluti á borð við fíla- og nashyrningshorn.