Drottning sóttarlaus

Sonja drottning yfirgefur Ríkissjúkrahúsið í Ósló eftir gangráðsaðgerðina 16. janúar …
Sonja drottning yfirgefur Ríkissjúkrahúsið í Ósló eftir gangráðsaðgerðina 16. janúar í vetur. Þangað var hún lögð inn á ný um páskana vegna öndunarerfiðleika sem hún nú hefur náð sér af. AFP/Annika Byrde

Sonja Nor­egs­drottn­ing er heil heilsu á ný eft­ir að hún var lögð inn á Rík­is­sjúkra­húsið í Ósló á ann­an í pásk­um vegna öndundar­erfiðleika.

Þetta staðfestu tals­menn norsku kon­ungs­hall­ar­inn­ar í sam­tali við NTB-frétta­stof­una í morg­un auk þess sem þeir gátu þess að drottn­ing snúi aft­ur til hefðbund­inna embætt­is­starfa þegar í dag.

Sonja, sem er 87 ára göm­ul, var flutt með sjúkraþyrlu frá sum­ar­bú­stað kon­ungs­fjöl­skyld­unn­ar, Prin­se­hytta eins og hann kall­ast, í Sikkils­dal í eystri hluta Jot­un­heimen-þjóðgarðsins í Inn­land­et fylki, um pásk­ana og gekkst und­ir rann­sókn­ir á sjúkra­hús­inu sem út­skrifaði hana heim dag­inn eft­ir, á þriðju­dag­inn.

Krón­prins­inn áhyggju­full­ur

Greindi Há­kon krón­prins frá því í sam­tali við norska rík­is­út­varpið NRK þá sam­dæg­urs að ekk­ert al­var­legt hefði komið í ljós við rann­sókn­irn­ar, en engu að síður væri hann með bögg­um hild­ar vegna heilsu­fars móður hans.

„Mér þykir ástæða til að hafa áhyggj­ur þegar ákveðið er að flytja hana með þyrlu á Rík­is­sjúkra­húsið,“ sagði krúnu­erf­ing­inn við rík­is­út­varpið og bætti því við að móðir hans hefði hlotið hina bestu þjón­ustu á sjúkra­hús­inu í um­sjá fag­legra lækna og sem bet­ur færi hefðu rann­sókn­ir ekki leitt neitt al­var­legt í ljós.

Í janú­ar gekkst Sonja und­ir brjóst­hols­skurðaðgerð þegar hjarta­gangráður var grædd­ur í hana, tæpu ári eft­ir að Har­ald­ur kon­ung­ur maður henn­ar gekkst und­ir sams kon­ar aðgerð.

VG

NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert