Sonja Noregsdrottning er heil heilsu á ný eftir að hún var lögð inn á Ríkissjúkrahúsið í Ósló á annan í páskum vegna öndundarerfiðleika.
Þetta staðfestu talsmenn norsku konungshallarinnar í samtali við NTB-fréttastofuna í morgun auk þess sem þeir gátu þess að drottning snúi aftur til hefðbundinna embættisstarfa þegar í dag.
Sonja, sem er 87 ára gömul, var flutt með sjúkraþyrlu frá sumarbústað konungsfjölskyldunnar, Prinsehytta eins og hann kallast, í Sikkilsdal í eystri hluta Jotunheimen-þjóðgarðsins í Innlandet fylki, um páskana og gekkst undir rannsóknir á sjúkrahúsinu sem útskrifaði hana heim daginn eftir, á þriðjudaginn.
Greindi Hákon krónprins frá því í samtali við norska ríkisútvarpið NRK þá samdægurs að ekkert alvarlegt hefði komið í ljós við rannsóknirnar, en engu að síður væri hann með böggum hildar vegna heilsufars móður hans.
„Mér þykir ástæða til að hafa áhyggjur þegar ákveðið er að flytja hana með þyrlu á Ríkissjúkrahúsið,“ sagði krúnuerfinginn við ríkisútvarpið og bætti því við að móðir hans hefði hlotið hina bestu þjónustu á sjúkrahúsinu í umsjá faglegra lækna og sem betur færi hefðu rannsóknir ekki leitt neitt alvarlegt í ljós.
Í janúar gekkst Sonja undir brjóstholsskurðaðgerð þegar hjartagangráður var græddur í hana, tæpu ári eftir að Haraldur konungur maður hennar gekkst undir sams konar aðgerð.