Íranar vilji ekki ræða við Evrópu

Donald Trump Bandaríkjaforseti ræddi við fjölmiðla á Morristown-flugvelli í New …
Donald Trump Bandaríkjaforseti ræddi við fjölmiðla á Morristown-flugvelli í New Jersey-ríki í Bandaríkjunum í kvöld. AFP/Michael Ngan

Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti hef­ur litla trú á viðræðum Evr­ópu­ríkja og Írans sem áttu sér stað í Genf í Sviss í dag. Sagði hann að yf­ir­völd í Íran vilji tala við Banda­rík­in, ekki Evr­ópu.

„Íran vill ekki tala við Evr­ópu. Þeir vilja tala við okk­ur. Evr­ópa mun ekki geta hjálpað í þessu máli,“ sagði Trump við blaðamenn í Morristown í New Jers­ey í kvöld. 

Trump sagði jafn­framt að Íran hefði að há­marki tvær vik­ur til að forðast hugs­an­leg­ar loft­árás­ir Banda­ríkj­anna.

Í gær sagði Trump að hann ætlaði að taka ákvörðun inn­an tveggja vikna um hvort grípa ætti til hernaðaraðgerða í Íran.

Evrópskir ráðherrar að loknum fundi með utanríkisráðherra Írans í Genf …
Evr­ópsk­ir ráðherr­ar að lokn­um fundi með ut­an­rík­is­ráðherra Írans í Genf í Sviss í dag. AFP/​Fabrice Cof­fr­ini

Var hann í kvöld spurður hvort það væri mögu­leiki að hann myndi taka ákvörðun um aðgerðirn­ar áður en sá tími liði.

„Ég er að gefa þeim ákveðið tíma­bil, og ég myndi segja að tvær vik­ur væri há­markið,“ svaraði Trump. Bætti hann við að mark­mið hans væri að „sjá hvort fólk myndi vakna til vit­und­ar“.

Erfitt að biðja Ísra­el um að stöðva árás­ir

Trump gaf lítið fyr­ir þann mögu­leika að biðja Ísra­els­menn um að linna árás­um sín­um á Íran þrátt fyr­ir full­yrðingu Abbas Arag­hchi, ut­an­rík­is­ráðherra Írans, um að yf­ir­völd í Íran myndu ekki ræða við Banda­rík­in fyrr en Ísra­el myndi stöðva árás­ir sín­ar.

Sagði Trump að það væri „mjög erfitt að koma þeirri beiðni á fram­færi núna“.

„Ef ein­hver er að vinna er aðeins erfiðara að gera það en ef ein­hver er að tapa, en við erum til­bún­ir, vilj­ug­ir og fær­ir, og við höf­um verið að tala við Íran og við mun­um sjá hvað ger­ist.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert