Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur litla trú á viðræðum Evrópuríkja og Írans sem áttu sér stað í Genf í Sviss í dag. Sagði hann að yfirvöld í Íran vilji tala við Bandaríkin, ekki Evrópu.
„Íran vill ekki tala við Evrópu. Þeir vilja tala við okkur. Evrópa mun ekki geta hjálpað í þessu máli,“ sagði Trump við blaðamenn í Morristown í New Jersey í kvöld.
Trump sagði jafnframt að Íran hefði að hámarki tvær vikur til að forðast hugsanlegar loftárásir Bandaríkjanna.
Í gær sagði Trump að hann ætlaði að taka ákvörðun innan tveggja vikna um hvort grípa ætti til hernaðaraðgerða í Íran.
Var hann í kvöld spurður hvort það væri möguleiki að hann myndi taka ákvörðun um aðgerðirnar áður en sá tími liði.
„Ég er að gefa þeim ákveðið tímabil, og ég myndi segja að tvær vikur væri hámarkið,“ svaraði Trump. Bætti hann við að markmið hans væri að „sjá hvort fólk myndi vakna til vitundar“.
Trump gaf lítið fyrir þann möguleika að biðja Ísraelsmenn um að linna árásum sínum á Íran þrátt fyrir fullyrðingu Abbas Araghchi, utanríkisráðherra Írans, um að yfirvöld í Íran myndu ekki ræða við Bandaríkin fyrr en Ísrael myndi stöðva árásir sínar.
Sagði Trump að það væri „mjög erfitt að koma þeirri beiðni á framfæri núna“.
„Ef einhver er að vinna er aðeins erfiðara að gera það en ef einhver er að tapa, en við erum tilbúnir, viljugir og færir, og við höfum verið að tala við Íran og við munum sjá hvað gerist.“