Gert er ráð fyrir að um 2,5 milljónir flóttamanna muni þurfa að yfirgefa heimili sín og setjast að í nýju landi samkvæmt nýjasta mati UNHCR, flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Sú tala sé ívið lægri en ráðgerður fjöldi flóttamanna sem talinn er þurfa að flytjast búferlum á árinu 2025, en sá fjöldi nemur 2,9 milljónum.
Að sögn Shabia Mantoo, talsmanns UNHRC, er þessi nýja staða aðallega til komin vegna breyttra aðstæðna í Sýrlandi sem hafa gert flóttamönnum kleift að snúa aftur til landsins.
„Við höfum séð marga Sýrlendinga hafna boðum um hæli í öðrum löndum til þess að snúa frekar aftur til heimalandsins og byggja upp hið nýja samfélag,“ segir hún.
Heimildir AFP herma að undir lok árs 2024 hafi metfjöldi verið á flótta í heiminum, eða 123,2 milljónir, en sú tala hafi lækkað í 122,1 milljón samhliða því að Sýrlendingar fóru að snúa heim í auknum mæli.
Þrátt fyrir það er útlit fyrir vaxandi flóttamannavanda á heimsvísu.
Ásamt öðrum ríkjum hafi Bandaríkin, lengi vel stærsta móttökuland flóttafólks, skellt aftur dyrunum þegar Donald Trump tók við embætti í janúar.
„Búist er við að árið 2025 verði tekið á móti fæstum flóttamönnum á heimsvísu í tvo áratugi, jafnvel færri en í Covid-faraldrinum þegar mörg lönd stöðvuðu flóttamannaáætlanir sínar tímabundið,“ er haft eftir Mantoo á vef AFP.
Hún ítrekar þó að vandinn einskorðist ekki við Bandaríkin – margt bendi til þess að fleiri lönd séu að minnka fjölda kvótaflóttamanna sem þau sjái sér fært að taka á móti.