Takahiro Shiraishi, „Twitter-morðinginn“ svokallaði, var tekinn af lífi með hengingu í Japan í dag fyrir að myrða níu manns, einkum konur, árið 2017. Kynntist hann fórnarlömbum sínum á samfélagsmiðlunum Twitter, nú X, og dró af því viðurnefni sitt.
Shiraishi lokkaði fórnarlömb sín í íbúð sína í Zama, skammt frá höfuðborginni Tókýó, þar sem hann kyrkti þau áður en hann bútaði lík þeirra niður.
Beita Shiraishi var sjálfsvígsaðstoð. Á Twitter-síðu hans mátti lesa yfirlýsinguna „Ég vil hjálpa þeim sem þjást verulega. Sendið mér einkaskilaboð hvenær sem er“ og vakti mál hans mikla umræðu í Japan um sjálfsvígsspjall á samfélagsmiðlum.
Lofaði „Twitter-morðinginn“ þeim sem hann myrti slíkri aðstoð og hét sumum þeirra því að hann tæki eigið líf við hlið þeirra á hinni efstu stundu.
Þegar allt komst upp og lögregla framkvæmdi húsleit á heimili hans, „hryllingshúsinu“ sem kallað var í fjölmiðlum eftir á, fann hún níu niðurbútuð lík í frystikistum, kæliboxum og verkfærakistum.
Saksóknarar kröfðust dauðarefsingar, en verjandi Shiraishi krafðist vægari dóms þar sem fórnarlömbin hefðu veitt samþykki sitt og þegið aðstoð við að komast yfir móðuna miklu. Síðar hafnaði Shiraishi þessum málsbótum og kvaðst hafa myrt fólkið án samþykkis þess.
Aftökur eru fátíðar í Japan þar sem sakamenn eru undantekningarlaust hengdir hljóti þeir dauðadóm. Um þessar mundir bíða hundrað fangar aftöku á dauðadeildum japanskra fangelsa og berst helmingur þeirra fyrir því að fá mál sitt endurupptekið.
Síðasta aftaka í Japan fór fram árið 2022 þegar Tomohiro Kato var hengdur fyrir að verða sjö manns að bana er hann ók vörubifreið inn í mannfjölda í Tókýó auk þess að stinga fjölda fólks með eggvopni.
Áratugir geta liðið þar til fangar á dauðadeild eru teknir af lífi og fá þeir jafnan ekki að vita af yfirvofandi aftöku fyrr en að morgni aftökudagsins.