„Twitter-morðinginn“ hengdur

Takahiro Shiraishi hylur andlit sitt í höndum sér eftir handtökuna …
Takahiro Shiraishi hylur andlit sitt í höndum sér eftir handtökuna og sést hér í aftursæti lögreglubifreiðar í kjölfar þess er upp um hann komst. Ljósmynd/Samfélagsmiðillinn X

Taka­hiro Shirais­hi, „Twitter-morðing­inn“ svo­kallaði, var tek­inn af lífi með heng­ingu í Jap­an í dag fyr­ir að myrða níu manns, einkum kon­ur, árið 2017. Kynnt­ist hann fórn­ar­lömb­um sín­um á sam­fé­lags­miðlun­um Twitter, nú X, og dró af því viður­nefni sitt.

Shirais­hi lokkaði fórn­ar­lömb sín í íbúð sína í Zama, skammt frá höfuðborg­inni Tókýó, þar sem hann kyrkti þau áður en hann bútaði lík þeirra niður.

Beita Shirais­hi var sjálfs­vígsaðstoð. Á Twitter-síðu hans mátti lesa yf­ir­lýs­ing­una „Ég vil hjálpa þeim sem þjást veru­lega. Sendið mér einka­skila­boð hvenær sem er“ og vakti mál hans mikla umræðu í Jap­an um sjálfs­vígs­spjall á sam­fé­lags­miðlum.

Níu niður­bútuð lík fund­ust

Lofaði „Twitter-morðing­inn“ þeim sem hann myrti slíkri aðstoð og hét sum­um þeirra því að hann tæki eigið líf við hlið þeirra á hinni efstu stundu.

Þegar allt komst upp og lög­regla fram­kvæmdi hús­leit á heim­ili hans, „hryll­ings­hús­inu“ sem kallað var í fjöl­miðlum eft­ir á, fann hún níu niður­bútuð lík í frysti­kist­um, kæli­boxum og verk­færa­k­ist­um.

Sak­sókn­ar­ar kröfðust dauðarefs­ing­ar, en verj­andi Shirais­hi krafðist væg­ari dóms þar sem fórn­ar­lömb­in hefðu veitt samþykki sitt og þegið aðstoð við að kom­ast yfir móðuna miklu. Síðar hafnaði Shirais­hi þess­um máls­bót­um og kvaðst hafa myrt fólkið án samþykk­is þess.

Síðasta af­taka í Jap­an 2022

Af­tök­ur eru fátíðar í Jap­an þar sem saka­menn eru und­an­tekn­ing­ar­laust hengd­ir hljóti þeir dauðadóm. Um þess­ar mund­ir bíða hundrað fang­ar af­töku á dauðadeild­um jap­anskra fang­elsa og berst helm­ing­ur þeirra fyr­ir því að fá mál sitt end­urupp­tekið.

Síðasta af­taka í Jap­an fór fram árið 2022 þegar Tomohiro Kato var hengd­ur fyr­ir að verða sjö manns að bana er hann ók vöru­bif­reið inn í mann­fjölda í Tókýó auk þess að stinga fjölda fólks með eggvopni.

Ára­tug­ir geta liðið þar til fang­ar á dauðadeild eru tekn­ir af lífi og fá þeir jafn­an ekki að vita af yf­ir­vof­andi af­töku fyrr en að morgni af­töku­dags­ins.

BBC

CBS

CNN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert