Líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi í kaþólskum skóla í Frakklandi hélt áfram óáreitt árum saman án nokkurs konar viðbragða eða aðgerða frá Francois Bayrou, forsætisráðherra Frakklands, sem gegndi embætti menntamálaráðherra á árunum 1993 til 1997.
Þetta eru niðurstöður svartrar skýrslu sem byggir á rannsókn franskra þingmanna sem var birt í dag. Þeir rannsökuðu ásakanir um ofbeldi í heimavistarskólanum Notre-Dame de Betharram. Þingmennirnir bentu einnig á viðvarandi ofbeldi í öðrum frönskum skólum og sökuðu ríkið um aðgerðaleysi.
Bayrou, sem er 74 ára, hefur á undanförnum mánuðum staðið frammi fyrir ásökunum frá stjórnarandstöðunni um að hann hafi sem menntamálaráðherra vitað af útbreiddu líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi í áratugi í Notre-Dame de Betharram-skólanum. Nokkur barna hans gengu í skólann á sínum tíma.
„Án aðgerða sem fyrrverandi menntamálaráðherra [...] hafði tök á að grípa til, hélt þetta líkamlega og kynferðislega ofbeldi gegn nemendum Betharram áfram árum saman,“ sögðu skýrsluhöfundarnir Violette Spillebout og Paul Vannier.
Einn embættismanna í starfsteymi Bayrou hefur gagnrýnt niðurstöðurnar sem sökuðu forsætisráðherrann um aðgerðaleysi.
„Þetta er nákvæmlega öfugt,“ sagði embættismaðurinn í samtali við AFP, en hann kom fram undir nafnleynd. „Enginn ráðherra sem kom á eftir Francois Bayrou reyndi að sannreyna þetta eða koma á eftirliti,“ bætti hann við.
Bayrou sjálfur hefur neitað sök og fordæmt það sem hann kallar ófrægingarherferð gagnvart sér.