Alvarlegt umferðarslys er ekið var á gangandi vegfaranda

Rétt eftir miðnætti barst tilkynning um alvarlegt umferðaslys á Sæbraut við Vogabyggð þar sem ekið hafði verið á gangandi vegfaranda. 

Samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra slökkviliðsins höfuðborgarsvæðinu var vegfarandinn fluttur á slysadeild. Ekki er vitað nánar um líðan einstaklingsins. Ökumanninn sakaði ekki. 

Lítill skilningur fyrir lokunum

Viðbragðsaðilar voru lengi á vettvangi, en í dagbók lögreglu segir að meðan lögreglumenn voru við störf á vettvangi bar að nokkurn fjölda vegfaranda.

„Er það samdóma álit lögreglumanna að hluti vegfaranda hafi sýnt störfum lögreglu lítinn skilning og verið ósáttir við að komast ekki leiðar sinnar. Lögregla minnir á að ávallt er góð ástæða fyrir lokunum lögreglu, en þær eru bæði til að tryggja vettvanginn í tenglsum við rannsóknarhagsmuni auk þess að tryggja öryggi viðbragðsaðila sem starfa innan lokana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert