Gígurinn hleðst áfram upp

Eldgos á Reykjanesskaga.
Eldgos á Reykjanesskaga. mbl.is/Hákon

Lítil breyting hefur orðið á virkni gígsins í Sundhnúkagígum síðustu daga og styðja óróamælingar við þessa niðurstöðu. Hraunflæði frá virka gígnum heldur áfram að renna að mestu til suðausturs í átt að Fagradalsfjalli.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Tekið er fram, að lítilsháttar breytingar hafi verið á hraunjaðrinum, en almennt sé framrás hraunjaðrana lítil.

Hraunið getur breytt um stefnu brotni gígurinn niður

„Gígurinn hleðst áfram upp, sem eykur hættu á að hann brotni niður. Ef slíkt gerist gæti hraun breytt um stefnu, en miðað við staðsetningu gígsins eru innviðir ekki taldir í hættu.

Aflögunargögn sýna að jafnvægi er á milli streymis kviku inn í söfnunarsvæðið undir Svartsengi og flæðis kviku upp á yfirborð úr virka gígnum,“ segir í tilkynningunni. 

Gasmengun mældist á Húsafjalli

Þá segir Veðurstofan, að gasmengun hafi mælst á Húsafjalli, austan Grindavíkur, um helgina, en ríkjandi norðanátt var um helgina leiddi til þess að gas barst suður frá gosstöðvunum.

Þeir sem eru á ferð á svæðinu eru hvattir til að fylgjast með gasdreifingaspá Veðurstofunnar og leiðbeiningum varðandi gasmengun hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka