Þegar gestur Dagmála í dag, hóf störf sem prestur á Siglufirði í byrjun aldarinnar voru heimsóknir skóla- og leikskólabarna fastur liður á aðventunni. Nú heyra þessar heimsóknir sögunni til, segir Sigurður Ægisson. „En svo byrjaði þessi umræða hér fyrir sunnan, hjá Reykjavíkurborg. Hét það ekki menningarráð Reykjavíkurborgar? Þetta smitaðist ofurlítið út á land og hafði þessi áhrif og ég upplifði það þannig að skólastjórnendur þyrðu ekki annað en að hlíða þessu. Vildu ekki vera öðruvísi,“ upplýsti Sigurður í Dagmálum.
Já bara hræddir?
„Já,“ svarar hann og nefnir sem dæmi að hann hafi á föstudögum mætt í leikskólann með gítarinn og sungið fyrir börnin. Þar valdi hann ekki sjálfur lögin heldur spilaði það sem fyrir hann var lagt á svokallaðri söngstund. „Þegar þessi umræða fór í gang þá lognaðist það út af. Ég var náttúrulega prestur og það þótti ekki nógu fínt.“
Hvaða rugl er þetta?
„Ég veit það ekki.“
Í framhaldinu var hann spurður hvort ekki þyrfti að vinda ofan af þessu. Hann benti þá á að Guðrún Karls Helgudóttir nýr biskup hafi nýverið beint því til skólastjórnenda og kennara að heimsækja kirkjur með börnunum. Hann þekkir ekki undirtektir enda séu þessi tilmæli nýlega til komin.
Þessi umræða um heimsóknir barna í kirkjur landsins sprettur út frá spurningunni hvort kristnin á Íslandi sé að veikjast. Séra Sigurður segir svo ekki vera og bendir meðal annars á þær fjölmörgu auglýsingar um viðburði sem séu á dagskrá í kirkjustarfi og það beri vott um blómlegt starf.
Sigurður Ægisson er gestur Dagmála í dag þar sem margt ber á góma og þá ekki síst nýútkomin bók hans Ókei þar sem hann ræðir tilurð þessa þekktasta orðatiltækis í heiminum.
Þáttinn í heild sinni má nálgast hér fyrir neðan. Hann er opinn áskrifendum Morgunblaðsins.