Brotist inn og stolið fyrir um tvær milljónir króna

Hér má sjá hjólið sem var stolið úr versluninni, ásamt …
Hér má sjá hjólið sem var stolið úr versluninni, ásamt þjófinum. Samsett mynd

Brotist var inn í verslunina Sportís í Skeifunni í nótt, en varningi var stolið að verðmæti tæplega tveggja milljóna króna.

Stolið hjóli í eigu fyrirtækisins

Meðal þess sem var stolið var grænt hjól af gerðinni Pivot Shuttle LT Team, sem var í eigu fyrirtækisins og starfsmenn höfðu afnot af. Hlynur Skúli Skúlason, sölustjóri Sportís, var meðal þeirra sem notuðu hjólið mikið.

„Svo hefur þetta hjól líka verið mikið notað sem prufuhjól fyrir kúnna,“ segir Hlynur. 

Innbrotið átti sér stað um fjögur leytið í nótt, og þjófavarnarkerfið fór í gang við það. Hlynur var mættur á vettvang um hálf fjögur leytið ásamt lögreglu og eiganda Sportís. 

„Hann var búinn að velja það áður“

„Hann hljóp inn og fór beint í þetta hjól, það er augljóst að hann var búinn að velja það áður en hann kom.“ 

Innbrotsþjófurinn henti hjólinu út um gluggann og hljóp svo aftur inn, stal bakpoka og fyllti hann af bolum, derhúfum og húfum. 

„Því næst dreif hann sig burt á hjólinu. Það er örugglega meginástæðan fyrir að hann valdi þetta hjól, því það eru pedalar á því, annars hefði hann ekki getað hjólað í burtu.“

Hjólahvíslarinn líklegastur til að finna hjólið

Hlynur segir að brotist hafi verið í margar íþrótta- og hjólaverslanir á árinu, en þetta sé í fyrsta skipti sem innbrot heppnast eftir að verslun Sportísar flutti í Skeifuna.

„Þetta innbrot kemur því okkur ekki mikið á óvart, enda var reynt að brjótast inn til okkar fyrir um þremur mánuðum, en þeir komust þá ekki í gegnum gluggann.“

Lögreglan er komin í málið, og eins hefur Hlynur birt færslu á Facebook til að lýsa eftir hjólinu, sem hefur verið dreift víða um miðilinn. Hlynur segir þó að ef einhver geti fundið hjólið þá sé það Bjartmar Leósson, betur þekktur sem jólahvíslarinn, en hann er kominn í málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka