Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók mann sem hafði hótað nágranna sínum. Eggvopn var haldlagt á vettvangi. Lögreglustöð fjögur sinnti málinu, en hún sinnir verkefnum í Grafarvogi, Mosfellsbæ og Árbæ.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu, þar sem greint er frá verkefnum lögreglu frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í nótt.
Þá var ökumaður stöðvaður í akstri þar sem hann var leiðbeinandi í æfingaakstri. Í ljós kom að leiðbeinandinn var undir áhrifum áfengis. Hann var því handtekinn og blóðsýni tekið úr honum í þágu rannsóknar málsins.
„Lögregla vill benda á að leiðbeinandi í æfingaakstri telst ábyrgur fyrir akstrinum og skal því vera allsgáður við gjörninginn,“ segir í dagbók lögreglu.
Þá kemur fram í dagbók lögreglu að til rannsóknar hjá henni sé mál þar sem dyravörður í miðbænum er grunaður um líkamsárás.