Jólakötturinn úr endurunnu gleri

Danski glerblásarinn Anders Vange er sestur að á Íslandi og …
Danski glerblásarinn Anders Vange er sestur að á Íslandi og hefur nóg að gera. mbl.is/Ásdís

Í Grundarhverfi á Kjalarnesi má finna glerblásarann Anders Vange en hann fékk aðstöðu til listsköpunar á verkstæði Sigrúnar Einarsdóttur. Á borðum og í hillum má sjá ógrynni af handblásnum glösum, kertastjökum, vösum og öðrum dýrgripum sem Anders hefur sjálfur hannað og búið til. Hann er léttklæddur, á stuttbuxum og stuttermabol sem er fremur óvenjulegt nú þegar veturinn er genginn í garð. En það skýrist um leið og hann býður blaðamanni að fylgjast með glerblæstri. Hitinn frá ofninum er nefnilega allnokkur!

Það er heitt við ofninn og betra að vera léttklæddur.
Það er heitt við ofninn og betra að vera léttklæddur.

Anders er snöggur að sýna hvernig hann tekur gamalt brotið gler og býr til úr því eins konar jólaleg grýlukerti sem hægt er að hengja upp í glugga fyrir jólin. Anders hannaði jólaköttinn í ár fyrir Rammagerðina sem nú í nokkur ár hefur fengið listamenn til að búa til nýja útgáfu af jólakettinum sem svo seldur er í þrjátíu eintökum.

Önnur kynslóð ­glerblásara

Anders flutti frá Danmörku fyrir tveimur og hálfu ári ásamt íslenskri konu og tveimur börnum.

„Ég kynntist konu minni þegar hún vann í galleríi eitt sumar sem var beint á móti glerverkstæði fjölskyldunnar. Við bjuggum svo saman í Danmörku í tíu ár en töluðum oft um að flytja hingað og mig langaði mikið til þess,“ segir Anders, en hann er frá litlu fiskiþorpi úti á landi í Danmörku og alinn upp við glerblástur.

„Ég er af annarri kynslóð glerblásara og byrjaði mjög ungur í faginu. Foreldrar mínir voru með glerlistafyrirtæki þar sem pabbi var glerblásari og mamma sá um reksturinn. Ég var um fjórtán, fimmtán ára þegar ég byrjaði að blása gler og um sautján ára aldur fór ég í glerblásaranám til Birmingham í Englandi,“ segir hann og segist elska vinnuna sína.

Anders býr til alls konar glermuni; glös og kertastjaka til …
Anders býr til alls konar glermuni; glös og kertastjaka til að mynda.

„Það tekur langan tíma að öðlast færni í faginu,“ segir Anders sem nú selur vörur sínar í Rammagerðinni, í Galleríi Bjarna Sigurðssonar á Skólavörðustíg og á heimasíðunni reykjavikglass.com.

Lífræn og fljótandi form

Hver einasti hlutur er einstakur, enda engin fjöldaframleiðsla hér á ferð.

„Ég reyni að búa til hlutina þannig að hægt sé að sjá að þeir voru í fljótandi formi á einum tímapunkti og formin mín eru mjög lífræn,“ segir hann.

„Oft þegar ég er að hanna nýja hluti tekur það mig tíu til tuttugu tíma að ná hlutnum eins og ég vil hafa hann. Eftir að ég er sáttur við þá hönnun tekur það mig kannski bara hálftíma. Þegar ég var að hanna jólaköttinn gerði ég hátt í fimmtíu prufur áður en ég var ánægður með útkomuna,“ segir hann.

„Ég var valinn í ár af Rammagerðinni til verksins og þar sem hann er aðeins seldur í þrjátíu eintökum er hann söfnunargripur,“ segir Anders, en hann á sjálfur tvo ketti og þá af holdi og blóði. Hann þurfti því ekki að leita langt yfir skammt til að fá innblástur í listsköpunina.

Anders er hér með köttinn góða sem er úr endurunnu …
Anders er hér með köttinn góða sem er úr endurunnu gleri.

„Svo er kærastan mín dýralæknir þannig að ég heyri mikið sögur af köttum,“ segir hann.

„Ég þekkti aðeins söguna af íslenska jólakettinum en hann finnst ekki í Danmörku og ekki heldur Grýla,“ segir Anders og brosir. 

Ítarlegt viðtal er við Anders í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka