„Þetta er skipulag sem hefur tekið breytingum frá 2009 og í minni tíð höfum við ekki fengið breytingar inn til ráðsins. Þetta hefur verið að velkjast á milli skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa og ekki komið fyrir ráðið. Ég hef óskað eftir gögnum frá skipulagsfulltrúa, skrifstofu borgarstjórnar, en ekki fengið samþykktina. Þess vegna reka allir upp stór augu núna þar sem tillagan var aldrei kynnt kjörnum fulltrúum,“ segir Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna og fulltrúi í skipulagsráði Reykjavíkur, um stærðarinnar vöruhús sem rís nú við hlið fjölbýlishúss í Breiðholti.
Hildur segir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi ekki samþykkt lóðaúthlutunina við Álfabakka þegar hún kom fyrir borgarráð í júní 2023 og segir þau hafa lengi talað fyrir heildarendurskoðun skipulagsins með það fyrir augum að efla Mjóddina sem þjónustukjarna og styrkja Breiðholtið.
„Það er alveg ljóst að hér er um algjört skipulagsslys að ræða og ekki við Haga að sakast, heldur er klúðrið algjörlega á ábyrgð borgarinnar. Maður finnur hræðilega til með íbúum sem virðast hreinlega staddir í einhverjum fangabúðum eftir að þessi kaldranalegi járnveggur reis fyrir framan stofugluggann hjá þeim. Þetta mál er með öllu óskiljanlegt.“
Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir þetta hús hafa komið sér algjörlega í opna skjöldu og það hafi verið áfall að sjá hvernig þetta lítur út.
„Ég vil að húsið verði lækkað og ég mun eiga viðræður við uppbyggingaraðilana hvernig staðið verði að því,“ segir Einar Þorsteinsson borgarstjóri, spurður um álit sitt á byggingunni.
Hann telur augljóst að allir sem að málinu komu hafi gert mistök.
„Ég furða mig á að borgin, umhverfis- og skipulagssvið og uppbyggingaraðilarnir sem létu hanna þetta hús skyldu ekki átta sig á því hvaða viðbrögð þetta hús myndi fá. Nú þarf að setjast niður og ræða saman og leita leiða til þess að lækka bygginguna næst íbúðablokkinni.“
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, laugardag.