Jón Ármann Steinsson, útgefandi bókarinnar Leitin að Geirfinni, hefur ritað ráðuneytisstjóranum í dómsmálaráðuneytinu bréf þar sem fram kemur að öll gögn sem urðu til við rannsóknir vegna bókarinnar verði afhent dómsmálaráðherra.
Jón Ármann staðfesti þetta við Morgunblaðið.
Í bréfinu kemur fram að við vinnslu bókarinnar hafi komið í ljós sterkar vísbendingar um að Geirfinnsmálið sé morðmál en ekki mannshvarf. Þær hafi ekki allar verið birtar í bókinni. Jón Ármann segir að í bréfinu séu sett fram nokkur atriði sem aðstandendur bókarinnar vonist eftir að ráðherra, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, hlutist til um í framhaldinu.
Hvarf Geirfinns Einarssonar í Keflavík 19. nóvember 1974 verði rannsakað, frumrannsókn lögreglunnar í Keflavík verði rannsökuð, málsmeðferð Guðmundar- og Geirfinnsmála verði rannsökuð og ítarleg leit verði gerð að týndum gögnum.
Bókin kom út 19. nóvember á síðasta ári og er eftir Sigurð Björgvin Sigurðsson. Einn viðmælenda í bókinni segist hafa orðið vitni að því sem ungur drengur að Geirfinnur hafi orðið undir í átökum við annan mann. Hafi hann væntanlega hlotið bana af samkvæmt frásögninni en átökin hafi byrjað fyrir utan heimili Geirfinns og haldið áfram í bílskúrnum. Nafn vitnisins kemur ekki fram en einnig er vísað til nágranna sem hafi heyrt öskur og læti koma frá húsinu þetta kvöld.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag