HappAppið hennar Helgu Arnardóttur og landlæknis er ókeypis fyrir notendur. Fleiri konur en karlar nota smáforritið og telur Helga það til marks um að „konur hafa meiri áhuga á svona en karlar.“
Helga hippi, eins og hún titlar sjálfa sig í gamni segist ekki verða rík á því að þróa appið sitt til notkunar í sjö Evrópulöndum. „Nei. Þetta er svona hugsjónaverkefni. Þetta app er ókeypis og ég vona að það verði alltaf ókeypis. Það er markmiðið. En það þýðir náttúrulega að það þarf að styrkja þetta. Þetta Evrópusamstarfsverkefni felur í sér fjármögnun í þrjú ár og svo þurfum við að út úr því hvað gerum við eftir það. Af því að hugmyndin er sú að enginn sleppi því af því að hann tími því ekki,“ upplýsir hún.
Sjálf er hún hálfu starfi hjá Landlæknisembættinu og hennar laun fjármögnuð af samstarfinu í gegnum Mentor sem er evrópskt lýðheilsuverkefni og hluti af því er HappApp sem er geðræktarforrit þar sem notendur geta gert margskonar æfingar og hlúð að eigin geðheilsu.
Hvernig fólk er það sem halar niður appinu?
„Það eru fleiri konur sem hafa sótt appið heldur en karlar. Aldursdreifingin er reyndar á öllum aldri sýnist mér. En jú talsvert fleiri konur en karlar en það er samt alveg slatti af körlum sem hafa sótt appið líka.“
Er þetta hirðuleysi karla um eigið geð, eða dæmi um fleiri vandamál kvenna þegar kemur að geði?
„Þetta er mjög góð spurning. Konur hafa meiri áhuga á svona allavega heldur karlar. Þannig að að einhverju leiti snýst þetta um áhuga. Ég hef líka tekið eftir því þegar ég er með námskeið að fleiri konur sækja þau en karlar,“ segir Helga Arnardóttir.
HappAppið sem hún er höfundur að er gengið í endurnýjun lífdaga og kom út í nýrri mynd, seint á síðasta ári bæði á íslensku og ensku. Appið hefur nú verið tekið undir verndarvæng Mentors áætlunarinnar og verður gert aðgengilegt fyrir sjö lönd í Evrópu og er hafin vinna við að þýða það á tungumál þeirra landa sem um ræðir og jafnframt að staðfæra innihaldið.
Dagmálaþátturinn með Helgu Arnardóttur er opinn áskrifendum og geta þeir nálgast hann með því að smella á linkinn hér að neðan.