Fimmtán mánaða dómur fyrir innflutning kókaíns

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Hákon

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt erlenda konu í fimmtán mánaða fangelsi fyrir innflutning á rúmum 1,2 kílógrömmum af kókaíni ætluðu til söludreifingar. Konan játaði brotið skýlaust fyrir dómi.

Dómurinn var birtur 24. febrúar en málið var dómtekið fjórum dögum fyrr.

Efnin falin innvortis

Kemur þar fram að konan hafi flutt fíkniefnin til Íslands sem farþegi í flugi en voru efnin falin innvortis.

Segir í dómnum að konan hafi ekki sætt refsingu áður og að gögn málsins hefðu bent til þess að aðstæður hafi verið henni erfiðar sem aðilar hafi hagnýtt sér.

Þvinguð til að stunda vændi

Þótti því ekki ráðið að konan hefði verið eigandi fíkniefnanna eða tekið þátt í skipulagningu á kaupum og innflutningi þeirra til Íslands, að öðru leyti en að samþykkja að flytja þau til landsins gegn greiðslu.

Þá hafi lögmaður sem aðstoðaði konuna við að sækja um hæli á Ítalíu árið 2018 staðfest í skýrslutöku hjá lögreglu að konan hefði verið þvinguð af erlendum glæpahópi til að stunda vændi og að hún hefði verið undir ægivaldi hópsins í langan tíma.

Gæsluvarðhaldið til frádráttar

Horft var til sérstakra aðstæðna og dómaframkvæmda í svipuðum málum og þótti refsing konunnar hæfilega ákveðin fangelsi í fimmtán mánuði.

Til frádráttar refsingarinnar kemur þó gæsluvarðhald sem hún hafði sætt frá 24. nóvember 2024.

Þá ber henni að greiða þóknun verjanda síns, sem hljóðar upp á 1.121.580 kr. sem og þóknun tilnefnds verjanda á rannsóknarstigi sem hljóðar upp á 770.040 kr.

Einnig ber henni að greiða 853.819 kr. í annan sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert