Loftgæðaspá tvo sólarhringa fram í tímann

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Þorsteinn Jóhannsson, loftgæðasérfræðingur …
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Þorsteinn Jóhannsson, loftgæðasérfræðingur hjá Umhverfis- og orkustofnun og nýtt spálíkan um loftgæði. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Nýtt spálíkan fyrir loftgæði, sem opnað var hjá Umhverfis- og orkustofnun í vikunni, opnar möguleikann á að spá fyrir um ástand loftgæða tvo sólarhringa fram í tímann.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá stjórn­ar­ráðinu.

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, opnaði nýja líkanið formlega í heimsókn hjá stofnuninni.

Líkanið má finna á vefsíðunum spa.loftgaedi.is og loftgæði.is

Loftgæðaspá í rauntíma

Hingað til hefur aðeins verið mögulegt að nálgast mælingar á loftgæðum aftur í tímann en nýja líkanið gerir fólki kleift að kynna sér loftgæðaspá í rauntíma – og tvo sólarhringa fram í tímann.

Loftgæðaspáin er gerð fyrir tvö landsvæði.

Annars vegar er gerð spá frá umferð á höfuðborgarsvæðinu um styrk svifryks (PM10) og köfunarefnisdíoxíðs (NO2).

Hins vegar er gerð spá fyrir allt Suðvesturland um dreifingu brennisteinsdíoxíðs (SO2) frá stóriðju og dreifingu brennisteinsvetnis (H2S) frá jarðhitavirkjunum.

Spurðu ráðherra um áherslur í umhverfismálum

Jóhann Páll ræddi einnig við forstjóra og sviðsstjóra Umhverfis- og orkustofnunar um helstu verkefni stofnunarinnar og svaraði spurningum starfsmanna um áherslur sínar og ríkisstjórnarinnar í umhverfis- og orkumálum.

Ný Umhverfis- og orkustofnun hóf starfsemi sína um áramót með sameiningu Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar.

Stofnunin fer með stjórnsýslu loftslags-, umhverfis- og orkumála ásamt málefnum auðlindanýtingar.

Yfirsýn yfir fjárhagsstöðu Landsnets

Ráðherrann fékk einnig kynningu á nýju rekstrarmælaborði Raforkueftirlitsins, sjálfstæðrar einingar undir Umhverfis- og orkustofnun.

Mælaborðið er hannað til að veita hagaðilum og eftirlitsaðila betri yfirsýn yfir fjárhagsstöðu flutningsfyrirtækisins Landsnets, en með reglulegri uppfærslu gagna á það að geta stuðlað að auknu gagnsæi og betri ákvarðanatöku.

Um er að ræða gagnvirkt tól sem sýnir þróun tekna, gjalda og arðsemi eigna Landsnets frá árinu 2015 til 2023 og uppgjör tekjumarka fyrir árið 2023.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert