Jökull Frosti Sæberg var aðeins fjögurra ára gamall þegar hann lést af slysförum fyrir tæplega fjórum árum. Faðir hans, Daníel Sæberg Hrólfsson, var staðráðinn í að nýta þann sára harm sem fylgdi sonarmissinum til að láta gott af sér leiða og halda minningu sonar síns á lofti um ókomna tíð.
Daníel Sæberg er gestur Kristínar Sifjar Björgvinsdóttur í Dagmálum. Þar ræðir hann á einlægan hátt um fráfall sonar síns og dagskrá Græna dagsins, styrktarviðburðar sem hann efnir nú til í þriðja sinn til heiðurs Jökli Frosta og fram fer á sunnudaginn.
Harmur foreldra sem missa barnið sitt er ólýsanlegur með öllu, bæði orðum, tjáningu og tilfinningum. Daníel man atburðarrásina vel þegar hann fékk fregnir af því hvað hafði komið fyrir Jökul Frosta. Símtalinu örlagaríka mun hann aldrei gleyma.
„Hann lendir í því að fá aðskotahlut í hálsinn og þá tók við mjög erfiður tími. Líka bara höggið að heyra frá þessu,“ segir Daníel sem upplifði algert bjargarleysi á þessum tímapunkti þar sem hann sat fastur í umferðarteppu og varð vitni að því þegar sjúkrabílarnir þutu framhjá í forgangsakstri til að bjarga lífi sonar hans.
„Ég man nákvæmlega hvar ég var. Ég sat fastur í umferð þar sem ég sá sjúkrabílana,“ lýsir hann. „Það var alveg ömurlegt og tíminn bara fraus. Það gerðist allt svo hægt, eða mér leið þannig.“
Frásögn Daníels af deginum örlagaríka og aðdraganda fráfalls Jökuls Frosta er þyngra en tárum taki. Reynt var við kælimeðferð til að auka við lífslíkur hans, en líkt og Daníel segir var Jökull Frosti með lífsmarki í fimm daga eftir slysið en lá þungt haldinn á Landspítala.
„Það er einhver von. Þarna var hann ekki alveg farinn þannig það er einhver von um að hann komi til baka og er fer sem sagt í svona kælimeðferð. Það á að hjálpa til við súrefnisskorti og fleiru en það því miður gekk ekki.“
Það er vart hægt að setja sig í spor foreldra sem missa börn sín. Hægt er að gera sér nístandi sársaukann í hugarlund en að sögn Daníels er hann allt annar í raunveruleikanum. Svo sár að honum er ekki hægt að lýsa.
„Maður er aldrei undirbúinn. Þú ert með alls konar hugmyndir eða þú gætir alveg ímyndað þér hvernig það er að missa barn en það að missa barn er einhver allt önnur tilfinning. Ég veit ekki alveg hvernig á að lýsa því. Einhvern veginn er ég enn gangandi í dag sem ég átti engan veginn von á að ég gæti.“
Líkt og áður segir var Daníel fastákveðinn í að nýta þessa harmafullu lífsreynslu til einhvers góðs. Sorgina vildi hann nýta sér sem afl til góðverka og þar með kviknaði hugmyndin að Græna deginum.
„Þetta er styrktardagur tileinkaður syni mínum og á sama tíma stöndum við fyrir söfnun fyrir börn og unglinga í sorg,“ lýsir Daníel en Græni dagurinn verður haldinn á afmælisdegi Jökuls Frosta næstkomandi sunnudag, 2. mars, en þann dag hefði hann orðið átta ára hefði hann lifað.
Allt styrktarfé Græna dagsins rennur til samtaka sem aðstoða börn í sorg, líkt og Örninn styrktarfélag og Sorgarmiðstöð. Daníel segir málstaðinn verðugan og vilji með Græna deginum endurgjalda á einhvern hátt allt það sem samtökin hafa gert fyrir hann og eldri son hans sem missti mikið þegar Jökull Frosti lést.
Hægt er að leggja málefninu lið með frjálsum framlögum:
Minningarsjóður Jökuls
Banki 0133-26-017904
Kennitala 521224-0530
Dagskrá Græna dagsins má sjá hér að neðan og viðtalið við Daníel má nálgast í heild sinni með því að smella hér.