„Stórt skref að komast þarna inn“

Hugmynd fæddist Urði Egilsdóttur í réttarsal í bláköldum íslenskum raunveruleika. …
Hugmynd fæddist Urði Egilsdóttur í réttarsal í bláköldum íslenskum raunveruleika. Það fræ sem þar var sáð hefur nú tekið á sig mynd sex þátta undir titlinum Manifesto. Ljósmynd/Aðsend

„Hugmyndin kviknaði í dómsal fyrir rúmu ári, en ég vil að það komi alveg skýrt fram að þetta handrit mitt er ekki byggt á neinu raunverulegu máli,“ segir Urður Egilsdóttir blaðamaður sem síðustu vikurnar hefur birst íslensku – og raunar evrópsku – samfélagi sem handritshöfundur spennuþáttanna Manifesto sem Síminn og evrópski dreifingaraðilinn Wild Bunch TV hafa veg og vanda af að skila ofan í æ kröfuharðari neytendur álfunnar.

„Þetta varð svo að snjóbolta sem tók að rúlla sjálfstætt,“ heldur blaðamaðurinn áfram, sem reynist luma á meistaraprófi í handritaskrifum frá MetFilm School í bresku höfuðborginni London. Hlaut eitthvað að vera.

Málið sem um ræðir, og Urður vill í öllum bænum ekki láta tengja við handrit hennar sem sögusvið á nokkurn hátt, er hryðjuverkamálið svokallaða sem vakið hefur þjóðarathygli undanfarin misseri.

„Upphafspælingin hjá mér var sem sagt hvað gerist í íslensku samfélagi ef hryðjuverk eru framin og það sem serían fjallar um eru eftirmálar hryðjuverks sem ungur strákur fremur eftir að hafa ánetjast hægriöfgaöflum,“ segir handritshöfundurinn frá, en hún starfar á Morgunblaðinu og þar með hér á mbl.is svo það komi nú fram.

Glæpatryllir og skáldskapur

Þættirnir eru sex talsins og voru nú fyrir skemmstu kynntir við athöfn á TV Drama Vision sem var hliðarviðburður á Kvikmyndahátíðinni í Gautaborg, en það er íslenski framleiðandinn Glassriver, sem margir tengja þáttaraðirnar Svörtu sanda, Venjulegt fólk og Vitjanir við, sem framleiðir Manifesto.

Allt mjög íslenskt sem sagt, nema kannski hryðjuverk sem við Íslendingar búumst síst við að sjá í okkar ranni – vonum að minnsta kosti að svo verði ekki nú á voveiflegum tímum hinnar títtnefndu breyttu heimsmyndar sem auðvitað ratar inn í afþreyingariðnað eins og svo margt annað hryllilegt, sorglegt og skelfilegt.

„Þetta er glæpatryllir og hann er skáldskapur, en engu að síður er það von mín að þættirnir veki upp umræður í samfélaginu. Þetta getur gerst á Íslandi,“ segir handritshöfundurinn og vísar til nýlegrar hryðjuverkaárásar í Svíþjóð auk þess sem Norðmönnum mun seint líða ódæði Anders Behrings Breiviks sumarið 2011 úr minni. En við tökum upp léttara hjal.

Segðu mér örlítið frá vinnunni í kringum þetta og því hvernig handrit verður til.

„Ég fór sem sagt með þetta til Glassriver, sem er framleiðslufyrirtækið hans Baldvins Z [framleiðanda og leikstjóra, er raunar Zophoníasson], Andra Óttarssonar, Arnbjargar Hafliðadóttur og Andra Ómarssonar, í ágúst í fyrra. Þau tóku svona líka vel í þetta og þá byrjar boltinn að rúlla. Við fengum í þetta erlendan dreifingaraðila og þetta er búið að gerast alveg fáránlega hratt, ég er einhvern veginn stödd í miðju stormsins bara að reyna að átta mig á því hvað er að gerast,“ segir handritshöfundurinn og hlær við tilhugsunina um verk sem fyrir aðeins nokkrum mánuðum var handritið eitt.

Má segja að síðan hafi hver áfanginn rekið annan í átt að fullbúinni afurð.

Frá kynningunni á Manifesto sem fram fór á TV Drama …
Frá kynningunni á Manifesto sem fram fór á TV Drama Vision, hliðarviðburði Kvikmyndahátíðarinnar í Gautaborg, nú á ári öndverðu. Ljósmynd/Aðsend

Krefjandi fyrir lítinn intróvert

Eitthvað hlýtur forsjónin að hafa haft um það að segja að handritshöfundurinn og viðmælandinn ber nafn einnar örlaganornanna dulmögnuðu úr goðafræðinni norrænu, þeirra Urðar, Verðandi og Skuldar, því varla greip nokkuð annað í taumana en örlögin þegar Urður var skyndilega komin á kvikmyndahátíð í Gautaborg nú í ársbyrjun að kynna spennuþætti um hryðjuverk á Íslandi.

Er hún enda pínd til sagna um Svíþjóðarförina.

„Það var mjög stressandi,“ segir Urður til að taka af helstu tvímæli, „þetta var fyrsta kvikmyndahátíðin sem ég fer á og þessi hluti hennar var svona söluhluti,“ heldur hún áfram. Hafi það falið í sér að áhugasamir kaupendur hafi látið vel í sér heyra á hátíðinni með málfari og bransatali sem Urður skildi minnst í.

Hryðjuverk á Íslandi. Fjarlægur möguleiki eða nærtækur harmleikur?
Hryðjuverk á Íslandi. Fjarlægur möguleiki eða nærtækur harmleikur? Ljósmynd/Glassriver

„Það var mjög krefjandi fyrir lítinn „intróvert“ handritshöfund að vera innan um svona margt fólk sem var að reyna að fá sitt refjalaust. En mjög gefandi engu að síður,“ bætir Urður við og verður eitt augnablik eins og annars hugar til málrómsins. „En það er mjög stórt skref að komast þarna inn,“ segir viðmælandinn sem flutti eigið ávarp á hátíðinni sem höfundur Manifesto.

Hvað gerist þá næst í þessu ferli?

„Nú er ég að skrifa handritin og ef allt gengur að óskum ættu tökur þáttanna að hefjast vorið 2026 og frumsýning gæti þá orðið í lok þess árs eða byrjun 2027, en þetta er sá hluti ferlisins sem ég skil ekki og fatta ekki,“ segir Urður og enn gellur smitandi hlátur handritshöfundarins.

Skrifa sinn þáttinn hvor

Aðspurð kveðst hún ekki hafa sérstakt hlutverk í framleiðsluferlinu eftir að hún skili fullbúnu handriti, enda ekki að slægjast sérstaklega eftir því – hennar þáttur í öllu saman er jú handritið, grunnurinn undir vinnu þeirra listamanna sem svo láta ljós sitt skína, leikara, leikstjóra, förðunarsnillinga og annarra þeirra sem sveitast blóðinu við að færa almúganum brauð og leika í hringleikahúsum 21. aldarinnar – streymisveitunum.

Blaðamaður spyr út í vinnuna á bak við handrit að sex þáttum.

„Þetta eru 50 síður á þátt svo það eru 300 síður, ég skrifa fjóra þætti og svo skrifa tvær konur aðrar sinn þáttinn hvor,“ segir Urður og kynnir til sögunnar þær Karen Björgu Eyfjörð Þorsteinsdóttur og Elísabetu Hall. Lætur hún vel af samstarfinu og hælir þeim samhöfundum sínum á hvert reipi.

„Fólk horfir á seríur dag hvern en fæstir átta sig líklega á hve biluð vinna er á bak við þetta. Margar seríur taka tíu plús ár í vinnu þótt ég ætli að vona að þessi muni ekki gera það,“ segir Urður með vægri aðkenningu að hlátri.

Vinna hennar við skrifin nær þó meira en heilu ári. Doktorsritgerðir hafa fæðst á skemmri tíma. Ekki margar kannski.

Skrif í blóð borin

Hefurðu hugsað þér frekari störf á þessu sviði eftir þessa sprengjubyrjun?

Spurningin kallar fram nagandi kvíða hjá blaðamanni sem sér fram á enn meiri blóðtöku íslenskrar blaðamannastéttar – drjúgt hefur það blóð þegar verið drukkið.

Urður svarar því til af fullri hreinskilni að hana hafi frá blautu barnsbeini dreymt rithöfundardrauma. „Það var svo ekki fyrr en í menntaskóla sem ég áttaði mig á því að rithöfundur getur ekki bara skrifað bók, hann getur skrifað handrit og það er fleira í boði,“ segir Urður sem nam sagnfræði við Háskóla Íslands með skapandi skrif sem aukagrein áður en breska heimsveldið tók við henni í framhaldsnámið áðurnefnda í handritaskrifum. „Skrif hafa alltaf verið mér í blóð borin,“ segir blaðamaðurinn.

Baldvin Z kvikmyndaleikstjóri hefur getið sér góðan orðstír á sínu …
Baldvin Z kvikmyndaleikstjóri hefur getið sér góðan orðstír á sínu sviði sem nær út fyrir íslenska landsteina. Honum og samstarfsfólki hans hjá Glerá, eða Glassriver eins og það heitir, leist vel á sköpunarverk og hugarfóstur úr Urðarbrunni. Boltinn tók að rúlla. mbl/Arnþór Birkisson

Urður bendir þó á nöturlegan fylgikvilla þess bransa sem hún er að feta sig út í. „Það fylgir honum náttúrulega að ég veit ekki hvað ég er að fara að gera í haust,“ segir hún kímin, „en ég hef algjörlega fundið mig í þessum geira, blaðamennskan verður þó líklega alltaf þarna einhvers staðar í bland.

Þaðan koma jú hugmyndirnar,“ segir Urður Egilsdóttir, blaðamaður og handritshöfundur, að lokum, með báða fætur kirfilega á vígvelli hins ritaða – annan í streymdum afþreyingarheimi, hinn í bláköldum raunveruleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert