Sviptur ökuréttindum ævilangt fyrir ítrekuð brot

Málið var dómtekið 13. febrúar.
Málið var dómtekið 13. febrúar. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt erlendan karlmann í ellefu mánaða fangelsi fyrir ítrekuð umferðarlagabrot. Þá hefur maðurinn verið sviptur ökuréttindum ævilangt.

Dómurinn birtist 24. febrúar en málið var dómtekið ellefu dögum fyrr, þann 13.

Ítrekuð brot á stuttum tíma

Kemur fram í dómnum að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi lagt fram ákæru á hendur manninum fyrir ítrekuð umferðarbrot sem ná frá 21. maí til 7. september 2024.

Var maðurinn ökuréttindalaus þegar öll brotin áttu sér stað en hann var einnig undir áhrifum áfengis í flestum þeirra.

Segir í dómnum að maðurinn hafi játað brotin skýlaust fyrir dómi.

Fimm sinnum áður sætt refsingu

Segir þar enn fremur að samkvæmt sakarvottorði mannsins hafði hann fimm sinnum áður sætt refsingu og í öllum tilvikum fyrir umferðarlagabrot.

Þá var hann í þessu tiltekna máli að endurtaka akstur undir áhrifum áfengis í þriðja sinn og sviptingarakstur í annað skipti.

Auk fangelsisvistar og sviptingar ökuréttinda ævilangt ber manninum að greiða þóknun verjanda síns sem hljóðar upp á 200.880 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert