Tvær kannanir, ólíkar niðurstöður

mbl.is/Kristinn

Tvær kannanir á fylgi og vinsældum frambjóðenda til formennsku í Sjálfstæðisflokknum voru birtar í kvöld. Báðar voru unnar af Gallup. 

Samkvæmt niðurstöðum annarrar könnunarinnar segjast fleiri myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Guðrún Hafsteinsdóttir verður formaður hans. Í hinni könnuninni nýtur Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir meira fylgis meðal stuðningsmanna flokksins en keppinautur hennar.

Guðrún Hafsteinsdóttir.
Guðrún Hafsteinsdóttir. mbl.is/María Matthíasdóttir

Greint var frá fyrrnefndu könnuninni í Ríkisútvarpinu. Þar segir að hún hafi verið gerð fyrir sjálfstæðismenn í Hrunamannahreppi sem hafi lýst yfir stuðningi við Guðrúnu. Segir í umfjöllun miðilsins að 52,5 prósent þeirra sem tóku afstöðu hafi sagt að Guðrún væri líklegri til að auka fylgi flokksins en 43,4 prósent hafi nefnt Áslaugu Örnu.

Þá benda niðurstöður umræddrar könnunar til þess að Áslaug njóti meira fylgis í yngri aldurshópum, 49 ára og yngri, en Guðrún í þeim eldri. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir mbl.is/María Matthíasdóttir

Síðarnefnda könnunin var unnin af Gallup fyrir Viðskiptablaðið. Niðurstöður hennar sýna að Áslaug Arna nýtur stuðnings 50% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins til formennsku í flokknum en Guðrún Hafsteinsdóttir nýtur stuðnings 48%.

Sama er uppi á teningnum í þessari könnun og hinni; Áslaug Arna hefur miklu meira fylgi í yngri aldurshópum en Guðrún í þeim eldri, sérstaklega meðal 70 ára og eldri.

 Nýr formaður Sjálfstæðisflokksins verður kjörinn á landsfundi flokksins um næstu helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert