„Verst var að vera í Síðumúlafangelsinu“

Kristján Berg, Fiskikóngurinn byggði upp samnefnt fyrirtæki og hefur getið sér gott orð fyrir þann rekstur. En undir lok síðustu aldar var Kristján dæmdur í fangelsi fyrir innflutning á eiturlyfinu alsælu. Hann hlaut tveggja ára dóm fyrir innflutning á 250 töflum.

Kristján Berg er gestur Dagmála í dag þegar þátturinn heldur upp á fjögurra ára afmæli sitt. Á þessum degi veturinn 2021 fór í loftið fyrsti Dagmálaþáttur Morgunblaðsins Síðan eru þættirnir orðnir 1.073.

Kristján Berg er lifandi persónuleiki og lífsglaður og lítið fyrir að bíða eftir hlutunum. Segist vera óþolinmóður eins og flestir Íslendingar.

En Kristján átti erfiðan kafla í sínu lífi í lok síðustu aldar. Hann prófaði alsælu og féll algerlega fyrir eiturlyfinu. Hann endaði með að flytja inn, það sem hann hélt að væru 500 töflur af alsælu en voru í raun bara 250. Hitt var lyftiduft eða sambærilegt. Hann var handtekinn og færður í Síðumúlafangelsið og var þar í einangrun á meðan málið var í rannsókn. Eftir dóm kom svo að því að hefja afplánun. „Ég man það eins og það hefði gerst í gær,“ upplýsir Fiskikóngurinn þegar hann er spurður hvort hann muni tilfinninguna þegar hann mætti á Litla – Hraun. „Það var ekki góð tilfinning,“ viðurkennir hann og rifjar upp að hann var hræddur alla fyrstu vikuna á meðan að hann var að komast inn í hlutina.

Kristján Berg í einlægu viðtali um fortíðina, núið og framtíðina. Með fréttinni fylgir brot úr viðtalinu við Kristján en áskrifendur geta horft á þáttinn í heild sinni með því að velja linkinn hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert