Háskólasamfélagið hefur mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur upp ótti um öryggi Íslands og á að vera í fararbroddi fyrir agaðri og yfirvegaðri umræðu um það hvaða möguleikar eru í stöðunni.
Lykiláherslur við kennslu Háskólans á Bifröst eru ekki hernaðarhyggja eða valdbeiting heldur almannaheill og samfélagsöryggi.
Þetta segir Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, prófessor og deildarforseti félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst, um grein Bjarna Más Magnússonar, prófessors og deildarforseta lagadeildar sama háskóla, í Morgunblaðinu í dag, undir fyrirsögninni Sterkur íslenskur her.
„Ég sem forseti félagsvísindadeildar er þeim megin á línunni, andspænis sjónarmiðum Bjarna Más um uppbyggingu hers,“ segir Ólína í samtali við mbl.is.
„Bjarni Már hefur þessa persónulegu skoðun sem fræðimaður og einstaklingur, hann lifir og hrærist í akademísku frelsi – og hefur skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi,“ segir Ólína.
Afstaða Háskólans á Bifröst til öryggis Íslands birtist þó í því námsframboði sem skólinn hefur fram að færa og þeim áherslum sem lagðar eru í náminu, en þrjár námslínur skólans tengjast málefninu.
Öryggisfræði og almannavarnir er ný námslína sem fór af stað í haust. Þá er í boði meistaranámslína í áfallastjórnun sem tekst á við endurreisn og uppbyggingu eftir áföll og ógnir. Að lokum er samskiptastjórnun ný námslína sem er að fara af stað næsta haust, þar verður tekið á upplýsingaóreiðu og mikilvægi þess – í síbreytilegum heimi – að hafa stjórn á samskiptum og tryggja öryggi upplýsinga.
„Allar þessar námslínur nálgast viðfangsefnið út frá almannaheill og almannavörnum gegn ógnum í þessum breytta heimi okkar. Þannig að lykilhugtökin eru ekki hernaðarhyggja eða valdbeiting heldur almannaheill og samfélagsöryggi,“ segir Ólína.
Það er mat Ólínu að misskilja mætti umræðuna þannig að Háskólinn á Bifröst, undir forystu forseta lagadeildar, hafi ákveðið að taka þá stefnu að stuðla að stofnun íslensks hers.
„Það er aldeilis ekki nálgunin sem við höfum í heiðri þegar kemur að öryggi Íslands, heldur leggjum við áherslu á almannaheill og almannaöryggi.“
Ólína segist þá persónulega og sem fræðimaður vera þeirrar skoðunar að pólitískar lausnir, samstaða með Evrópuríkjum og bræðraþjóðum, sé vænlegri til þess að tryggja öryggi Íslands heldur en stofnun hers eða eitthvert vopnaskak.
Spurð út í hugmynd Bjarna um herskyldu svarar Ólína að hún telji það þýðingarlausa tillögu.
„Við erum 400 þúsund manna örþjóð og það segir sig sjálft að við munum aldrei geta komið upp burðugum her, sem hefði nokkurt viðnám gegn milljónaþjóð sem færi að ásælast okkar land eða okkar auðlindir.“
Þá segir hún styrk Íslands liggja í því að geta verið í samfélagi annarra þjóða, eins og í ríkjabandalögum þar sem þjóðir styðja og styrkja hver aðra, og snúa að pólitískum lausnum við aðsteðjandi ógn, eins og ásælni annarra þjóða á því sem við höfum fram að færa.
„En við erum auðvitað sammála um að aðstæður á alþjóðavettvangi hafa breyst mikið,“ segir Ólína og vísar í innrás Rússa í Úkraínu, útrýmingarstríðið í Palestínu og kjör nýs Bandaríkjaforseta með allt aðrar áherslur en verið hefur.
Þá segir hún stjórnarhætti geðþóttans ríkja í Bandaríkjunum nú um stundir, sem tekið hafi þar við af lýðræðishefðum og skipulögðum verkferlum í stjórnkerfinu.
„Auðvitað höfum við áhyggjur af ásælni Bandaríkjaforseta á landsvæði og auðlindir á norðurslóðum eins og víðar, þetta vekur auðvitað ugg og ótta,“ segir hún, óttinn sé að Ísland sogist inn í hringiðu landvinningarátaka og þess háttar.
En vopnin sem við höfum séu hyggjuvit og pólitískar lausnir, miklu frekar en hervald.
„Ég meina Davíð barðist við Golíat og hafði sigur – ekki með afli heldur með klókindum og vitsmunum.“